01.08.1913
Neðri deild: 24. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í C-deild Alþingistíðinda. (443)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Einar Jónsson:

Það sem meðal annars vakti fyrir mér, þegar eg bað um orðið í annað sinn, var að þakka hrósyrði þau sem eg hefi fengið.

Háttv. þm. Sfjk. (V. G.) var svo góður að gefa mér óbeinlínis skýringu á sjálfum sér. Og held eg, að eg sé nú farinn að skilja hann. Hann sagði: »Góð meining enga gerir stoð«, og tók sér þar í munn orð bezta sálmaskálds vors. Getur hann ekki verið hreinskilinn maður, er hann segir slíkt, og mun það vera rétt lýsing á háttv. þingmanninum að sumra manna áliti.

Annars furðar mig á því, að menn skuli segja, að ekkert hafi legið á þessu máli. Það lá einmitt á því að sýna, hvað í boði var, og fá álit sambandsmanna um það áður en hæstv. ráðherra færi aftur utan.

Eg get ekki verið sammála hv. þm. Sfjk. (V. G.), þar sem hann sagði, að sjálfsagt hefði verið að heyra báða flokkana, því þegar kunnugt er að andstæðingaflokkurinn segir »nei« hvernig sem það frumv. er lagað, sem komið er með um sambandsmálið, get eg því ekki séð ástæðu til að kveðja hann til ráðagerða um málið. Það var heldur ekki haft neitt á móti því að þessir þingmenn kæmu á fundinn. Þeir gátu komið, ef þeim sýndist svo, og talað það sem þeim þóknaðist. En það lá alls ekki á að heyra það, sem þeir sögðu, en það lá á að heyra álit þeirra manna, sem samninga vildu og höfðu falið ráðherra þetta mál.