04.07.1913
Neðri deild: 3. fundur, 24. löggjafarþing.
Sjá dálk 30 í C-deild Alþingistíðinda. (6)

3. mál, fjáraukalög 1912 og 1913

Ráðherrann ( H. H.):

Eg er að vísu í vafa um hvort löglegt sé að fara þannig út í einstök atriði við 1. umr., en með samþykki háttv. forseta skal eg þó svara þessum aðfinslum hv. 1. þm. Rvk. (L. A. B.) með nokkrum orðum.

Fyrst mintist hann á aukakensluna Við kennaraskólann. Það var alveg rétt, sem hann gat til, að fjárveitingin hefði gengið til að borga aukakennara í sjúkdómsforföllum eins af kennurum skólans. Þetta hefir áður verið gert við kennara mentaskólana, þegar líkt hefir staðið á fyrir þeim, og hirði eg ekki að nefna nöfn því til stuðnings. Í þessu tilfelli álit eg sérstaklega maklegt og nauðsynlegt að veita þennan styrk. Kennari sá sem hér á hlut að máli, hefir afarlág laun og hefði verið algerlega ókleift að borga kennara af launum sínum jafnframt því að leita sér lækninga og sjá heimili sínu farborða.

Þá hefir háttv. þm. vaxið í augum styrkurinn til Kvennréttindafél. Íslands til að senda fulltrúa á alþjóðamót í Budapest. Í sömu gr. er þó farið fram á miklu hærri styrk til að borga kostnað Við för íþróttamanna á ólympísku leikana í Stokkhólmi í fyrra, og við það hefir hann ekkert að athuga, enda hefir þingið áður kunnað stjórninni þakkir fyrir að hlaupa þannig undir bagga upp á væntanlegt samþykki. Eg lít svo á að það sé engu Síður ástæða til að veita kvenfólkinu styrk til að sækja alþjóðakvenréttindamót heldur en að styrkja glímukappana til að fara á ólympíska leiki. Það er í fyrsta skifti sem oss er sýndur sá sómi að landstjórninni er boðið að senda íslenzkan fulltrúa á alþjóðamót, og eg get ekki litið öðruvís á en að gerður væri of mikill munur á kvenfólki og karlmönnum ef synjað hefði verið um þennan styrk. Það var ekki beðið um né veittur styrkur handa neinni sérstakri konu, heldur hefir Kvenréttindafélaginu verið veitt þetta fé upp á væntanlegt samþykki þingsins og hefir svo félagið kosið konu til fararinnar. Eg mun láta nefndinni í té skjöl með nægilegum skýringum á þessu máli.

Um ferðakostnað þingmanna á fund í Rvík síðastliðinn vetur get eg verið fáorður. Það má heita að sú ráðstöfun hafi verið bein afleiðing af framkvæmd á þingsályktun seinasta þings. En auðvitað hefi eg gert þessa ráðstöfun og útborgað þetta fé á mína eigin ábyrgð, eins og annað, sem eg geri. Ef þingið vill ekki veita þennan ferðakostnað, þá er ekki annað en að láta mig sjálfan borga hann. Upphæðin er eigi svo stór, að þess ætti ekki að vera einhver leið.

Viðvíkjandi uppbót á Vörutolli af kolum til Sameinaða gufuskipafélagsins skal eg að eins geta þess, að, eins og tekið er fram í athugasemdunum við frv., eru engar fastar ákvarðanir teknar um það. Það hefir að eins verið gengið inn á að leggja þessa peninga fram til bráðabirgða. En úr því á Alþingi að skera, hvort það vilji heimta úrskurð dómstólanna um það, hvort krafa félagsins sé réttmæt. Áliti þingið það Vafasamt að félagið eigi heimting á þessari uppbót, þá getur það farið í mál og fengið dómsúrskurð fyrir því, hvort félaginu beri að endurborga eða ekki upphæð þá sem það hefir tekið Við gegn »Skaðlausri kvittun«.

Frekara hefi eg ekki að segja. Eg er við því búinn að gefa nefndinni nægar upplýsingar um þetta mál, og álít það réttari leið, heldur en að fara að ræða það hér í deildinni við 1. umr.