01.09.1915
Neðri deild: 48. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (2376)

133. mál, stimpilgjald

Bjarni Jónsson:

Jeg verð að lýsa undrun minni yfir því, að háttv. sessunautur minn (Sk. Th.) skuli snúast gegn jafn meinlausu frumv. og þetta er. Jeg hefi oft þurft að láta stimpla skjöl erlendis og aldrei orðið fyrir töf af því, eða öðru tjóni en auraútlátunum, sem það kostaði. Menn þurfa ekki að lesa lög og dóma, til þess að komast upp á slíkt. Það er auðvelt, og lærist fljótt af sjálfu sjer, enda leiðbeina þá yfirvöldin, ef þess þarf. Og þótt einhvern tíma kynni að verða vafi á því, undir hvern flokk eitthvað ætti að teljast, þá munar ekki svo miklu, hvað ofan á verður í því efni, að mikill skaði geti að því orðið.

Þetta frumv. er, eins og önnur gjaldafrumv., ætlað til þess, að útvega landssjóði dálitlar tekjur, og satt að segja er það ekki ósanngjarnt, þótt eitthvað þyrfti að gjalda af braski því, er nú tíðkast svo mjög, og alloft er ekki nema málamyndasala, svo sem þegar verið er að skifta á húsaskrokkum og menn þá stundum gintir til illra kaupa, og væri vel, ef þetta gæti orðið til þess, að hefta það fargan lítið eitt, óbeinlínis.

Annars hjelt jeg síst, að jeg þyrfti að fara að mæla með tekjuaukafrumv. eins og þessu. Mjer hefir þó heyrst þjóta í þeim skjá, nú um hríð, að þeirra væri þörf, og er skemst á að minnast, að hjer var til umr. í gærkvöld frumv., sem átti að hjálpa þeim, sem verst eru staddir og ekkert »framleiða«. (Sveinn Björnsson: Þingið vildi ekki sinna því). Jú, þingið vill eitthvað í þá átt, en hins vegar hefði háttv. 1. þingm. Rvk. (S. B.) átt að hafa mín heilræði og taka það frumv. aftur, því að þá hefði hann getað sparað sjer það, sem nú er fram komið. En jeg endurtek það, að jeg undrast, að nokkur skuli hafa á móti þessu frumv. mínu hjer í þessari tíð, þegar menn eru í vandræðum með tekjur handa landssjóði, því að nokkurra peninga aflar það honum þó, og það eru engir blóðpeningar. Háttv. sessunautur minn (Sk. Th.) segir, að lítið muni um það. Það er þó varlega áætlað 25 þús. kr. á ári af skattanefndinni forðum, og nú mundi það vera jafnvarlega áætlað 1/3 hærra. Jeg efast um, að öllu meira þyrfti til þess, að borga hóflegan verðmismun á nauðsynjavöru fyrir fátæklinga hjer í dýrtíðinni, og það er, eins og jeg hefi áður sagt, sú eina aðferð til dýrtíðarhjálpar, sem nokkurt vit er í. Að minsta kosti ætti þetta fje að nema um 40,000 kr., og jeg skil ekki, að þeir líti smáum augum á það, sem halda að landið muni um 100 kr., handa einum fátækum kennara. (Jón Magnússon: Því lætur háttv. þingm. svona? Það eru ekki svo margir á móti þessu). Jeg má tala við þá, sem eru á móti því, og háttv. 2. þingm. Rvk. (J. M.) getur seinna tekið upp þykkjuna fyrir háttv. þingm. N.-Ísf (Sk. Th.), ef honum þykir jeg sauma of mikið að spjörum hans. Annars er það gott, ef margir vilja fylgja þessu máli. (Skúli Thoroddsen: Hví mælti háttv. þingm. móti tekjuaukafrv. í gær?). Það situr ekki vel á háttv. þingm., að spyrja að þessu, þar sem hann játaði þá sjálfur, að sjer þætti það frumv. óhafandi, enda þótt hann væri meðflutnm. að því. Jeg var á móti því frumv., af því að það var á ranglátum grundvelli bygt, en þessi aðferð til tekjuauka er ekki ranglát, enda algeng annarsstaðar. Auk þess mætti minna á það, að jeg hefi komið fram með annað frv. til tekjuauka, sem er á rjettlátum grundvelli bygt, þótt vera kunni, að gjöldin sjeu þar sett of hátt, en það má ætíð laga.

Jeg vona, að bæði háttv. þingm. N.- Ísf. (Sk. Th.) og aðrir samþ. þetta frv., því að það er alveg sjálfsagt.