11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (2379)

133. mál, stimpilgjald

Framsögum. meiri hlutans (Pjetur Jónsson):

Við, sem erum í meiri hluta í nefndinni, erum að vísu ekki ákveðnir í því, hvort það muni vera rjett eða ekki rjett, að leiða hjer í lög stimpilgjald. Það mál þarf að athuga vandlega, til þess að geta dæmt um það, hvort sá skattur muni ekki verða helsti umsvifamikill, og geta jafnvel orðið óþægilegur og ekki borgað sig. Við erum í vafa um þetta, en þó ekki af því, að við virðum ekki fyllilega skoðanir þeirra manna, sem halda gjaldinu fram, því að við búumst við því, þar sem nóg fordæmi eru til um þetta hjá öðrum þjóðum, þá sje hjer um engan óhæfan skatt að ræða. Það gætu nú ýmsir ætlað, að jeg, sem var í skattanefndinni frá 1907–1908, sem um þetta fjallaði, sje búinn að átta mig á þessu máli til fulls, en það var hvorttveggja, að jeg hafði mikið annað að gjöra í þeirri nefnd, enda hafði jeg aldrei þetta mál neitt sjerstaklega til íhugunar, heldur varð þar að fara eftir því, sem aðrir nefndarmenn og miklu færari höfðu búið okkur hinum í hendurnar.

En setjum nú svo, að við værum allir á sama máli um það, að slíkt gjald ætti að leiða í lög, þá ætti okkur samt öllum að vera það ljóst, að til þess þyrfti ríflegan tíma, að þingið tæki frumvarp þetta til sjálfstæðrar íhugunar og rannsóknar, svo að menn gætu verið fyllilega með. Þetta frumv. var að miklu leyti sniðið eftir þeim stimpilgjaldslögum, sem þá giltu í Danmörku, og þau voru þá orðin gömul, frá 1861, og eitthvert tillit kann að hafa verið tekið til norsku stimpilgjaldslaganna, sem voru enn þá eldri, og svo hinna sænsku. Nú eru komin ný lög í Danmörku um þetta efni og mjög ítarleg, í einum 150 gr., og jeg álít, að ef semja ætti þess konar lög hjer á landi, þá verði að hafa til hliðsjónar yngstu stimpilgjaldslög þeirra þjóða, sem vjer höfum mest viðskifti við. En til þess var hvorki tími nje tækifæri fyrir nefndina, ofan á alt annað, sem á okkur hvíldi.

Jeg er því, fyrir hönd meiri hlutans, ekki á móti því, að þetta gjald verði hjer lögleitt, heldur á móti hinu, að það verði lögleitt svona undirbúningslaust. Frumvarpinu hefir ekkert verið breytt síðan 1907. Síðan hafa þó meðal annars verið gefin ný lög um aukatekjur, og verður að gæta þess, að aukatekjugjald og stimpilgjöld verði ekki ofþungur skattur á einstökum greinum viðskiftanna.

Jeg sje það á brtt. háttv. minni hl., að hann hefir viljað taka nokkurt tillit til þessa, en hitt er ekki víst, að það sje nógu mikið. Eitt var það, sem allir voru á í nefndinni að athuga, hvort ekki væri rjett að leggja stimpilgjald á víxla, og er það nú lagt til í brtt., að svo sje gjört, en það hygg jeg, að betur hefði þurft að ganga frá þeim ákvæðum, en þar er gjört. Hver á t. d. að ónýta stimpilmerki á víxlum? Jeg held því, að enn sje best að fresta málinu og óska þess, að stjórnin íhugi það rækilega, sjerstaklega þar sem það hlýtur að vera mjög þægilegt, að hafa þessi nýju, dönsku stimpillög til hliðsjónar, sem sjálfsagt eru vönduð, og er það bein tillaga mín, að vísa málinu nú til stjórnarinnar.