11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1665 í B-deild Alþingistíðinda. (2382)

133. mál, stimpilgjald

Framsm. minni hl. (Eggert Pálsson):

Háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) tók það rjettilega fram, að það væri ekki á færi einstakrar þingnefndar, að búa til lög svipuð þessum, og skal jeg fúslega kannast við það, að ekki þarf til þess að hugsa, að slík nefnd geti hripað þau upp á stuttum tíma. En málið liggur ekki svo fyrir heldur, að þetta frumv. hafi verið búið til hjer nú, heldur var það gjört af milliþinganefndinni frá 1907, af mönnum, sem þingið þá taldi færasta til þess, og höfðu nægan tíma fyrir sjer. En nefndin, sem hjer hefir að því unnið, hefir ekki gjört annað en að taka upp frumv. hennar og athuga það á þeim grundvelli, sem það upphaflega var reist á.

Jeg, fyrir mitt leyti, er ekki í neinum vafa um það, að milliþinganefndin hefir hugsað málið mjög rækilega og búið það svo vel út að öllu leyti, að stjórnin gæti áreiðanlega ekki bætt þar um. Jeg get því ómögulega sjeð, að nokkuð vinnist við það, að þvæla það nú fram og aftur, og mjer blátt áfram finst það ekki vera tilvinnandi, þótt nýir menn væru nú kosnir til þess að íhuga og gjöra tillögur um málið. Þá er jeg viss um það, að málið yrði samt ekki svo vel undirbúið, að það þyrfti ekki endurbóta við og það strax á næstu árum. Það er ómögulegt að hugsa annað en að okkar sjerstöku kringumstæður hljóti að koma talsvert til greina við samning slíkra laga, sem þessara, en í hverju efni það er, sem við verðum að taka tillit til þeirra, það verður reynslan að kenna. Hið sama yrði uppi á teningnum þótt málinu væri nú vísað til stjórnarinnar. Hún gæti ekki á nokkurn hátt gengið svo frá þessu vandamáli, að ekki þyrfti við því að hrófla á næstu árum.

Það hefir verið sagt, að ótækt væri að samþykkja þetta frumv., nema breyta um leið lögunum um aukatekjur landssjóðs. Þetta er alveg rangt. Sama milliþinganefndin, sem undirbjó þetta mál, samdi einnig frumv. til laga um aukatekjur landssjóðs. Ekki er minsti vafi á því, að hún hefir sjeð svo um, að þau tvö frumv. kæmu ekki í bága hvort við annað. Þessu frumv. milliþinganefndarinnar, aukatekjulagafrumv., var mjög lítið breytt af þinginu, eins og sjá má af því, að bera saman lögin um aukatekjurnar og frumvarp nefndarinnar um þá grein. Svo að hafi það verið tiltækilegt 1907 eða 1909, að gjöra hvorttveggja að lögum, aukatekjufrumv. og stimpilgjaldsfrumvarpið, þá hlýtur það að vera enn.

Það, sem frumv. nefndarinnar um aukatekjurnar var breytt hjer í þinginu, frá því, sem miliiþinganefndin gekk frá því, var aðallega um það, að hækkuð var borgunin fyrir þinglestur og erfðaskrár. Með tilliti til þessa tókum við líka erfðaskrárnar út úr 4. gr. þessa frumv., og fluttum þær til, svo að við það verður samræmið líkara því, sem milliþinganefndin ætlaðist til.

Hvað viðvíkur stimpilgjaldi af víxlum, sem háttv. 1. þm. G.-K. (B. K.) mintist á, þá er því að svara, að okkar sjerstöku kringumstæður hljóta að koma þar mjög til greina, og því ekki gott — það játa jeg — að ákveða nokkuð fast um það gjald nú þegar. En annars finst mjer þetta ekki svo mikilvægt atriði, að ekki megi án baga sleppa því, ef frumv. fengist þá samþykt. Það er þá hægt að bæta víxlastimpilgjaldi inn í lögin síðar, ef svo sýndist henta. En verði frumv. ekki samþykt í einhverju formi, þá getur þetta aldrei orðið að tekjugrein fyrir landssjóðinn, eins og þó hefir viðurkent verið af mörgum, að það ætti að verða.

Það, sem jeg hefi sagt um þetta mál, hefir algjörlega hrakið mótbárur háttv. þm. S.-Þing. (P. J.), að mjer virðist. Jeg veit það auðvitað, að þótt við samþykkjum nú þessi lög, þá muni þau ekki verða gallalaus, en þessa galla má alt af laga síðar, smátt og smátt, svo sem þörfin og reynslan bendir til. En því verð jeg að mótmæla, að hrapað sje að þessu máli, þótt við samþykkjum það nú. Málið er svo rækilega undirbúið, sem nokkurt mál getur verið. Það hefir verið á dagskrá þjóðarinnar frá því 1907, og alt fram á þenna dag. Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) gat um það, að þessi lög mundu verða umsvifamikil í framkvæmdinni. Um það getum við hvorugur dæmt, á meðan lögin eru ekki komin til framkvæmda. Jeg legg áherslu á það, að við notfærum okkur þessa tekjugrein sem fyrst. Jeg er viss um það, að þótt við samþykkjum nú þessi lög, þá muni það ekki valda neinni almennri óánægju. Þetta gjald er þannig vaxið, að menn finna ekki mikið til þess, og láta sjer ekki fyrir brjósti brenna að inna það af hendi.