11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

133. mál, stimpilgjald

Bjarni Jónsson:

Jeg skal lofa því að vera stuttorður. Jeg skal að eins geta þess, að það var rjett, sem háttv. 2. þm. Rang. (E. P.) tók fram um aukatekjulögin. Þeim hafði lítið verið breytt í þinginu, og þar sem þeim hafði verið breytt svo, að þau kæmu í bága við þetta frumv., þá breyttum við frv. Hvað viðvíkur gjaldinu af víxlunum, sem hv. 1. þm. G.-K. (B. K.) talaði um, þá skal jeg taka það fram, að það gjald er svo lágt, eftir því sem við höfum sett það í frumv., að engan getur munað neitt um það. Við höfum ákveðið, að gjaldið skuli vera 20 aurar af víxlum fyrir neðan 1000 kr. Hærri víxla taka fátæklingar ekki. Þar sem háttv. sami þm. mintist á gjald af kvittunum, þá skal jeg taka það fram, að jeg mun verða því meðmæltur, að það gjald verði lögleitt, ef hann vill koma fram með brtt. um það við næstu umræðu. Okkur er legið á hálsi fyrir það, að við viljum nú koma þessum lögum í gegn um þingið. Skárri er það fífldirfskan af okkur, að vilja láta ganga fram lög, sem undirbúin hafa verið af milliþinganefnd, og síðan verið til umræðu á þrem þingum, þar af einu sinni sem stjórnarfrumv. Mjer finst það vera mjög undarlegt, að háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) skuli vilja drepa hendi við 60000 kr. tekjum í landssjóðinn. Þetta frumv. er þó í ætt við tolla-princip hans. Jeg skal nú ekki þreyta menn með lengri ræðu í þetta sinn, en þykist hafa gjört vel, að bera fram þetta frumv.