11.09.1915
Neðri deild: 57. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

133. mál, stimpilgjald

Framsögum. minni hlutans (Eggert Pálsson):

Tveir hv. þm. hafa nú staðið upp, til þess að andmæla frumvarpinu. Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) tók það fram, að hann bygði andmæli sín á eigin reynslu frá Dönum. Þar hafi stimpilgjaldslögin verið ákaflega flókin og erfitt að framkvæma þau. Jeg skal síst neyta því, úr því að hann hefir reynsluna, að stimpilgjaldslögin hafi verið flókin og ill viðfangs í Danmörku. En það sannar ekki, að þetta frumv., þótt að lögum yrði, þyrfti að verða flókið í meðferðinni. Jeg hygg, að eftir því, sem lagabálkur grípur yfir fleiri tilfelli í viðskiftalífinu, eftir því verði framkvæmd á honum flóknari. Þótt jeg viti ekki hvaða lagabálki hv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) varð að fara eftir í Danmörku, eða hvernig þau lög voru, sem þá giltu, þá veit jeg, að núgildandi stimpillög í Danmörku eru yfirgripsmikil, og jeg get vel skilið, að ef þessi háttv. þm. hefði átt að framfylgja þeim lagabálki, að þá mundi hann oft og einatt hafa rekið sig svo á, að lagaviti hans veittist torvelt að greiða úr flókunum. Um þetta frumv. er öðru máli að gegna. Það er ofur einfalt og því sennilega auðveldara að framfylgja því, heldur en dönsku lögunum.

Það var eitt atriði sem háttv. 2. þm. S. Múl. (G. E.) flaskaði á, líkt og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), þegar þetta mál var til 1. umr. Þeir gjöra ráð fyrir meiri flækju og vafningum en þarf að vera. Í 1. gr. frv. er gjört einmitt ráð fyrir, að embættismaðurinn ákveði stimpilgjaldið og setji stimpilinn á, þegar hann veitir skjalinu móttöku, hverrar tegundar sem er. Og þar með er útilokað, að ágreiningur þurfi af því að rísa, hvort rjett sje stimplað eða ekki.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (G. E.) sagði, að þetta gjald kæmi tilfinnanlegast niður á fátæklingum, en mjer er ekki ljóst hvernig hann hugsar sjer það. Það eru ekki fátæklingarnir, sem gefa mest út af skuldabrjefum, kaupbrjefum og afsalsbrjefum og fleira þess háttar. En það er annar flokkur, sem þetta gjald mundi koma niður á, og það eru braskararnir, og er síst að harma, þótt þeir þyrftu að greiða eitthvað í landssjóð af sínu mikla og — óholla braski.

Háttv. sami þingm. sagði líka, að aukatekjulögin gjörðu það að verkum, að þetta frumvarp yrði enn ósanngjarnara. En því hefi jeg svarað fyrr. Það var sama nefndin, sem bjó til aukatekjufrumv. og stimpilgjaldsfrumv. Hún hefir ekki álitið aukatekjulögin svo þung að ekki mætti koma með stimpilgjaldslögin líka. Annars er óhugsandi, að hún hefði komið með þessi tvö frumv. samhliða.

Þessi hv. þm. (G. E.) hjelt því fram, til þess að gjöra aukatekjulögin ægileg í augum manna, að það hefði komið fyrir, að hann hefði orðið að taka 400 kr. þinglestursgjald af einu brjefi. Slíkt sannar ekki neitt. Þá hefir verið um stóreign að ræða, sem hefir verið seld, og það þarf engum að vaxa í augum, þótt menn þurfi að borga eitthvað í landssjóð, er stórar eignir eru seldar. 400 krónur væri t. d. ekki hátt þinglestursgjald, ef um sölu á skipum Eimskipafjelagsins væri að ræða, samanborið við verðið.

Sami háttv. þingm. hjelt því fram, að hækkun á rjettargjöldunum kæmi hart niður á fátæklingunum. Jeg held, að ekki þurfi að harma það, þótt rjettargjöld væru hækkuð. Hækkun á þeim mundi miða til þess, að gjöra menn sáttgjarnari. Ódýr rjettargangur eykur að eins, að minni hyggju, óvild og úlfúð. Menn þjóta ekki í illindi og málaferli út af hverju einu, ef það kostar eitthvað verulegt.

Háttv. 1. þm. Rvk. (S. B.) tók það fram, að hann væri óvinveittur því, að þetta frumvarp yrði að lögum, með því að það væri að vega í hinn sama knjerunn, að leggja stimpilgjald á hinn sama gjaldstofn og verið væri að leggja á verðhækkunarskatt. En hjer er ekki um sama gjaldstofn að ræða. (Sveinn Björnsson: Jeg sagði gjaldendur). Það verður alt af að leggja á sömu gjaldendur, en gjaldstofninn er hjer gjörólíkur. Tollgjald af kjöti og fiski er ekki hið sama og stimpilgjald af kaupsamningi. Hann færði það og á móti frumvarpinu, að ekki væru með því innleidd stimpilfrímerki, sem mundu gefa feikna miklar tekjur. En það er alls ekki útilokað fyrir hann að koma fram með breytingartillögu í þessa átt. Það er þó mest um vert, að fá grundvöllinn góðan, því þá má alt af leiðrjetta lögin og bæta við þau eftir þörfum.

Viðvíkjandi fráganginum á frumv., þá held jeg að mjer sje óhætt að fullyrða, að hann verði ekki betri, þótt beðið sje til næsta þings. Lögin geta ekki orðið fullkomin, fyrr en reynsla er fengin um það, hvað sje best í hverju efni.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Það er bæði mjer og öðrum erfiðisauki, að halda langar ræður, þegar svo áliðið er þings, og þurfa svo ef til vill að fara heim, án þess að yfirlíta þær. Jeg segi þetta ekki sem ásökun til þingskrifaranna, því eins og allir vita, þá hefir verið vakað nætur og daga upp á síðkastið, svo þeim er ekki unt að afkasta því, sem þeir eiga að hafa lokið um það leyti, er þingi er slitið. Þetta sjá allir, sem sanngirni vilja við hafa.