15.09.1915
Neðri deild: 63. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2284 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

154. mál, Björgvinjargufuskipafélagið

Ráðherra:

Því er eins varið, með þessa fyrirspurn og hina, sem næst var á undan á dagskránni, að það hefir verið dregið lengi að koma fram með hana, og verður því svarið ef til vill eigi svo fullkomið sem ella hefði getað orðið.

Háttv. fyrirspyrjandi (M. Ó.) spyr fyrst að því, hvort nokkuð hafi verið gjört til þess að gæta rjettar landsmanna, út af því, er Björgvinjargufuskipafjelagið hækkaði farmgjöldin um 25% í ágúst í fyrra sumar. Það er nú víst rjett, að þetta tiltæki fjelagsins er ekki samkvæmt 3. gr. samningsins frá 24. okt. 1913, og má því að því leyti teljast rof á þeim samningi. Og þegar stjórnarráðið varð þess vísara, bæði af eigin reynslu og umkvörtun annara, að fjelagið hafði hækkað farmgjöldin svo, skrifaði það fjelaginu brjef um þetta, 27. febr. þ. á. Mótmælti þessu eindregið, og áskildi sjer og öllum, sem sendu með skipum þess, óskertan rjett, með því að þessi hækkun væri þvert ofan í 3. gr. samningsins. Þá hækkun, sem fjelagið krafðist fyrir vöruflutning í þágu hins opinbera, var neitað að greiða, og við það hefir staðið, þótt hins vegar einstakir menn muni hafa neyðst til að sætta sig við hækkunina, eins og háttv. fyrirspyrjandi (M. O.) tók fram. Þessu brjefi hefi fjelagið ekki enn svarað einu orði, en jeg býst við, að það verði álitið nægileg »reservation«, þannig, að menn eigi, samkvæmt því, nógan rjett til að gjöra gildandi samningsrof af hálfu fjelagsins, og má þá af hálfu landsstjórnarinnar væntanlega beita 10. gr. samningsins, þar sem sagt er, að stjórnarráðið geti ákveðið bætur fyrir minni háttar brot. En auðvitað gæti þetta líka orðið dómstólamál.

Þá er í öðru lagi spurt, hvort fjelaginu hafi verið greitt gjald það úr landssjóði, sem samningurinn gjörir ráð fyrir, þrátt fyrir þetta.

Já, fjelagið hefir fengið fulla borgun hingað til, samkv. 9. gr. samningsins, þ. e. 2500 kr. á mánuði til ágústmánaðloka, og stafar það eingöngu af því, að stjórnin hefir ekki sjeð sjer fært, að slíta samningum samkv. 10. gr. hans, því að hún hefir álitið, að almenningi mundi vera það mjög óþægilegt, þótt ferðirnar hafi verið óreglulegar og farmgjöldin hærri en vera átti. Það er sem sje kunnugt, að fjelagið er ekkert ginkept fyrir þessum ferðum nú, þar sem farmgjöld hafa svo mjög hækkað hvarvetna síðan samningurinn var gjörður, og myndi það því óefað nota tækifærið, ef styrknum væri haldið eftir, til þess að leggja niður ferðirnar. Ef þingið vildi að svo færi, þá myndi það þegar fást, því að jeg hygg, að fjelagið kæri sig ekki um aðrar ferðir hjeðan af en til þess, að sækja síldina til Akureyrar og Siglufjarðar í haust, en það er vafasamt, hvort landsmönnum yrði ekki bakaður meiri skaði með þessu.

Jeg býst við því, að þetta sje töluvert viðkvæmt mál. Það er að vísu gott, að eiga rjettinn á pappírnum, en það vill þó oft verða örðugt að fá honum fullnægt. Fjelagið hefir enga tryggingu sett fyrir því, að það haldi samninginn, og ef þessu yrði hreyft, þá yrði það væntanlega dómstólamál, milli fjelagsins annars vegar og stjórnarinnar og einstakra manna hins vegar.

Hefi jeg þá svarað báðum atriðum fyrirspurnarinnar, og læt hjer við staðar numið.