15.09.1915
Neðri deild: 63. fundur, 26. löggjafarþing.
Sjá dálk 2286 í B-deild Alþingistíðinda. (2790)

154. mál, Björgvinjargufuskipafélagið

Fyrirspyrjandi (Matth. Ólafsson):

Jeg er hæstv. ráðherra þakklátur fyrir svarið. Það var að nokkru leyti eins og jeg bjóst við, sem sje, að stjórnin hafi naumast talið það gjörandi, að fara strax í illindi við fjelagið, með því að þá misti landið ferðirnar, og yrði þá að meira eða minna leyti siglingalaust, en eigi hins vegar rjett sinn óskertan, ef hún vill halda honum fram á síðan.

Það er nú kunnugt, að menn eiga ekki að þurfa að borga farmgjöld, nema eftir samningnum. En nú hefir fjelagið hækkað þau frá því, sem þar er ákveðið. Þá þykir mjer nú mjög vafasamt, að það gæti hætt ferðunum, þótt landsstjórnin auglýsti, að það mætti ekki halda vörum fyrir mönnum, þótt þeir hafi ekki borgað af þeim aukagjald, sem þeir eiga ekki að borga. Með öðrum orðum, þótt þeir borgi ekki nema það gjald, sem um var samið.

Að öðru leyti get jeg tekið svarið til greina, en vona að stjórnin sjái sjer fært, að jafna um gúlana á fjelaginu í góðu tómi. Það á það margfaldlega skilið.