06.08.1919
Neðri deild: 26. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (2424)

112. mál, mat á fóðurbæti

Frsm. (Einar Árnason):

Það hafa komið fram raddir, á þingmálafundum og víðar, um að nauðsynlegt væri að koma á föstu mati á fóðurbæti, er gengi kaupum og sölum í landinu, til að tryggja, að eigi sje seld skemd vara eða ónýt sem góð og gild vara. Þetta mál kom og til umræðu á síðasta búnaðarþingi og komst það og að þeirri niðurstöðu, að mat þetta væri nauðsynlegt.

Það má ef til vill segja, að það hefði ekki verið ofætlun fyrir landbúnaðarnefndina að bera fram frv. um þetta efni nú á þinginu í ár. En þegar farið er að grannskoða málið, reynist það ekki nærri því eins einfalt og óbrotið og það virðist í fljótu bragði þeim, sem því eru ókunnugir.

Landbúnaðarnefndin hefir haft málið til meðferðar og leitað aðstoðar og upplýsinga hjá þeim, er hún hugði fróðasta um það. Sjerstaklega hefi jeg átt tal við núverandi formann Búnaðarfjelags Íslands; tók hann vel í málið og hjet aðstoð sinni með að koma því sem best áleiðis. Þá hefi jeg og átt tal um málið við einstaka þm., sjerstaklega við hv. 1. þm. Árn. (S. S.) og hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.). Allir virðast þeir málinu hlyntir, en játa það, að örðugt muni vera að gera það svo vel úr garði sem skyldi á þessu þingi. Niðurstaðan hefir því orðið sú hjá landbúnaðarnefndinni, að hún áleit rjettast að fara ekki lengra út í málið í þetta sinn en að bera fram þingsályktunartill. á þgskj. 243, þar sem skorað er á stjórnina að búa málið undir næsta þing, í samráði við Búnaðarfjelag Íslands, og leggja þá frv. um það fyrir þingið.

Jeg hefi vissu fyrir því, að formaður Búnaðarfjelagsins muni gera alt, sem í hans valdi stendur, til að útvega öll þau gögn, er stuðlað geti að því, að málið verði sem best undirbúið og komist í sem best horf. Að öðru leyti ætla jeg ekki að fara að rekja út í æsar ástæðurnar fyrir því, að mjög er torvelt að afgreiða málið að fullu á þessu þingi svo að vel fari, en vænti þess fastlega, að stjórnin sinni málinu.