22.08.1919
Neðri deild: 42. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2241 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

122. mál, bætur vegna tjóns af Kötlugosinu

Frsm. (Jón Jónsson):

Till. þessi, sem hjer liggur fyrir, er að eins heimild fyrir stjórnina til þess að gera það, sem í till. felst.

Eins og sjest á nál., er þar gerð nokkur grein fyrir þessari þingsályktunartill., og að nefndin sje ásátt um að mæla eindregið með henni. Enn fremur hefir fjárveitinganefnd ekkert við hana að athuga fyrir sitt leyti. Geri jeg því ráð fyrir, að ekki þurfi að fjölyrða um málið. Öllum mun vera svo ljóst, hver sanngirni mælir með því, sem hjer er um að ræða, að jeg geri ekki ráð fyrir, að mótmæli komi fram.

Um fyrra lið till. er það að segja, að hann fer fram á eftirgjöf jarðarafgjalds á opinberum jörðum í Vestur-Skaftafellssýslu. Þetta virtist nefndinni í alla staði sanngjarnt, þar sem fyrir liggur í skýrslum um þetta mál, að skemdir hafi orðið á jörðum yfirleitt, bæði túnum, engjum og lúthaga. Er því engum blöðum um það að fletta, að þessir menn muni eiga við þröngan kost að búa, jafnvel þótt vonandi sje, að úr því rætist bráðlega. Þessi eftirgjöf nemur og eigi stórri upphæð. Eftir þeim upplýsingum, sem nefndin hefir fengið, munu það vera um 4 þús. kr. á ári. Er það ekki stórum tilfinnanlegt, þótt ríkissjóður gefi þetta eftir í eitt skifti fyrir öll.

Um síðara liðinn fer nefndin nokkrum orðum í áliti sínu og drepur á, hve langt hún álítur að stjórnin megi fara um að ívilna bændum á öskusvæðinu alment um kaup á fóðurbæti næsta vetur. Þetta kemur ekki skýrt fram í till. sjálfri, og þótti nefndinni því rjett að benda stjórninni á eitthvað ákveðnara en gert er í till. Bar hún sig í öllu saman við flm. till. Varð ekki annað sjeð en að hann vildi fara sem vægilegast í málið. Er uppástunga nefndarinnar um ívilnanir gerð eftir samkomulagi við flutningsmann tillögunnar.

Jeg hygg það öllum ljóst, að þeir menn, er búa á þessum slóðum, eigi við alt önnur kjör að búa sem stendur en aðrir landsmenn, vegna þeirra skelfinga, er þar gengu á. Sjerstaklega tók nefndin eftir því í skýrslunni um Kötlugosið, að beitilönd hafa sjerstaklega orðið fyrir stórkostlegum skemdum, svo að ekkert er á þau að byggja næsta vetur. En það hefir mikla þýðingu, því að þó að bændur hafi hey, þá þurfa þeir miklu meira fóður næsta vetur en þeir ella hefðu þurft. Þess vegna er það nú brýn nauðsyn bændum í Skaftafellssýslu að tryggja skepnum sínum fóðurbæti, auk heyjanna, er þeir afla í sumar, til þess að sjá þeim sæmilega farborða. En þetta verða útgjöld, er á þá bætast fram yfir það venjulega, auk þess sem skepnunum fækkar. Liggur þá í hlutarins eðli, að búskapur þessara manna getur varla borið sig. Framleiðslukostnaðurinn verður svo mikill, að búið getur ekki borið hann. Menn vita, hve bændur alment eiga erfitt á þessum tímum, og gefur þá að skilja, að þeir bændur, sem orðið hafa fyrir þessu, muni eiga því örðugra að bjarga sjer.

Þess vegna hefir landbúnaðarnefnd þótt öll sanngirni mæla með því, að ríkið bæði útvegaði þessum hjeruðum fóðurbæti, og ívilnaði þeim um kostnaðinn. Hefir nefndin því gert till. sína í málinu, og væntir þess, að stjórnin fari ekki skemra í ívilnunaráttina, og það því fremur, sem hv. fjárveitinganefnd hefir samþykt fjárhagsatriðið. Því að jeg lít svo á, að þar sem fjárveitinganefnd hefir athugað nál. og hefir ekkert við það eða till. að athuga, þá sje hún samþykk því, sem í nál. stendur, en ekki till. einni.

Hefi jeg ekki fleira að segja, en vænti þess, að málið hafi góðan framgang.