15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (2541)

123. mál, landsreikningarnir 1916 og 1917

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það eru að eins 3 till., sem nefndin leggur til að verði gerðar út af þessum reikningi og athugasemdunum við hann árin 1916–17.

1. till. er sú, að aðskildir verði reikningar ríkissjóðs og viðlagasjóðs. Hingað til hefir þeim verið bandað mjög saman. Það hefir verið látið ráðast, hvort ríkissjóður greiddi fje í viðlagasjóð eða öfugt. Ef viðlagasjóður hafði tekjuafgang á árinu, þá hefir hann runnið í landssjóð, en aftur á móti hefir tekjuafgangur landssjóðs runnið í viðlagasjóð. Þetta hafa yfirskoðunarmenn bent á hvað eftir annað, að ekki væri heppilegt. Ef það er meiningin að halda viðlagasjóðnum sjerstökum, þá verður að hafa við hann sjerstakt reikningshald, svo að hann fái sjerstaka vöxtu af sínu fje, og að eins sje lánað úr honum þegar fje er fyrir hendi í sjóðnum. Sje því slegið föstu, að viðlagasjóður skuli ekki vera eyðslufje, en vextirnir skuli leggjast við hann, verður það með tímanum myndarlegur sjóður. Hann er nú um 1 milj. og 700 þús. kr. Þetta fyrirkomulag hefir nú verið tekið upp í fjárlagafrv., og með till. er meiningin að fá að vita, hvort þingið vill fallast á það eða ekki.

Þá er 2. tillagan, að „brýna fyrir forstöðumönnum skóla og annara stofnana, sem fá greitt fje úr ríkissjóði, að nota það í þeim tilgangi, sem fjárlög ákveða, eftir því sem við verður komið“. Yfirskoðunarmenn hafa fundið mjög að því, að fje, sem veitt er til slíkra stofnana, sje mjög oft flutt milli liða. Í fjárlögum er t. d. veitt ákveðin upphæð til eldiviðar, tímakenslu, o. s. frv. En svo hefir farið svo, að forstöðumenn stofnananna hafa notað suma liðina eingöngu, en suma ekki neitt, og svo hefir eyðslan á þeim liðum farið fram úr fjárveitingu. En jeg býst nú við, að ástæðan til þess, að yfirskoðunarmönnum hafi þótt kveða svo mikið að þessu, hafi verið styrjöldin. Það er því að nokkru leyti misskilningur hjá þeim, sem stafar af því, að þeir hafa ekki tekið nægilegt tillit til ástandsins. Þegar t. d. kol tífaldast í verði, er ekki hægt annað en að sá liður fari fram úr áætlun. Jeg get t. d. ekki áfelst skólastjórana á Hvanneyri og Hólum, þótt þeir hafi varið fjárveitingu, sem ætluð var til kensluáhalda, til þess að kaupa kol. Annað er það ekki, sem hjer á sjer stað. En þó verður að heimta, að ákvæðum fjárlaganna sje fylgt, þar sem þess er nokkur kostur. En mjer finst það ekki annað en óþarfa fyrirhöfn að vera að tína alt þetta saman í aukafjárlögum. Fyrir mjer er það bara praktiskt atriði, hvernig best sje að haga þessum reikningum. En jeg tel það rjett að láta reikningshaldara þessara opinberu stofnana hafa nokkurt aðhald um að fara eftir fyrirmælum fjárlaganna, eftir því sem við verður komið. Það segir sig líka sjálft, að þar sem fjárlögin eru samin fyrir tvö ár, þá er ekki gott að ákveða, hvað þarf til hvers einstaks, t. d. til Hvanneyrarskólans eða kennaraskólans. Það getur hæglega breyst á tveim árum 3. till. lýtur að því, að stjórnin sjái um, að endurgreitt sje í ríkissjóð það, sem óeytt er hjá reikningshöldurum skóla og annara stofnanna, ef ekki er um mjög óverulegar fjárhæðir að ræða. Hvort upphæðin er veruleg eða óveruleg, verður stjórnin að skera úr. Það hefir ekki verið venja að láta endurborga, þótt örlítið sje óeytt. t. d. 30–40 kr. En það er venja að fá ávísað, ef stofnunin skuldar eitthvað. Það sýnist ekki geta verið neitt varhugavert, þótt þeir endurborgi ekki svo litlar fjárhæðir við áramót, því að það verður að treysta endurskoðendum og stjórninni til að sjá um, að slíkt fje glatist eigi, enda er það auðvelt verk. Til þess þarf eigi annað en bera hvers árs reikning saman við reikning næsta árs á undan, og það gerir endurskoðunin jafnan hvort sem er.

Fleiri till. sá nefndin sjer ekki fært að gera. En nú vildi jeg víkja nokkrum orðum að öðrum till. yfirskoðunarmannanna, sem þeir hafa lagt nokkra áherslu á.

Er þá fyrst 58. till. við reikninginn 1916. Þar hafa yfirskoðunarmenn fundið að því, að gjöld bæjarsíma Reykjavíkur hafa ekki verið tekin upp á landsreikninginn. Nefndin hefir nú athugað þetta mál, og finst lítið mæla með því, að taka tekjur og gjöld bæjarsímans hjer upp í fjárlög. Það er ýmislegt, sem mælir með því, að eins hyggilegt sje að láta bæjarsímann sjá um sig sjálfan. Á meðan hefir stjórn hans hitann í haldinu um að láta fyrirtækið bera sig, en síður ef reikningurinn er tekinn upp í fjárlög. Annars er þess að geta um þessa reikninga, að þeim er haldið fyllilega utan við reikning landssímans, en fylgja honum samt og eru sendir yfirskoðunarmönnum. Svo hjer er að eins um það að ræða, hvort taka eigi áætlun um tekjur og gjöld upp í fjárlögin.

Þá virðist, sem yfirskoðunarmönnum sje hálfgert í nöp við styrkinn til verklegs náms við bændaskólann á Hvanneyri. (B. Sv. og J. B.: Hann er aldrei notaður). Jeg hefi fengið þær upplýsingar, að hann varð ekki notaður 1916 vegna þess, að þá gengu mislingar í Borgarfirði. Mun það vera rjett frá skýrt. Jeg man ekki upp á hár, hvernig till. yfirskoðunarmannanna hljóðar, en hún mun vera í þá átt, að rjett sje að láta fjárveitinguna falla niður.

En það væri undarlegt að afnema þennan styrk til verklegs náms, sem telja má að hvað mest ríði á við bændaskóla. Úr því að það sýnir sig, að illa gengur að fá hann notaðan, væri það sjálfsagt rjettari leið að reyna að hækka hann. (J. B.: Það segir í aths., að nemendur virðist ekki fúsir til verklegs náms). Það er ómögulegt að kenna skólanum eða skólastjóra um. Mjer er kunnugt um, að honum er það hið mesta áhugamál, að nemendur taki þátt í þessari kenslu.

Þá er 91. aths. við reikninginn 1916. Yfirskoðunarmenn una illa við, að t. d. landsskjalavörður og landsbókavörður taka ekki laun sín og starfsmanna sinna upp í reikning sinn, og telja það villandi. Nefndin getur ekki sjeð, að nokkur ástæða sje til að heimta slíkt. Þetta fje til aðstoðar gengur alls ekki í gegnum hendur landsbókavarðar, heldur er tekið beint hjá ríkisfjehirði. Hver starfsmaður fær laun sín hjá ríkisfjehirði. Er því langrjettast, að ríkisfjehirðir gerir grein fyrir því. Annars yrði það tvítalið.

Um athugasemdirnar 92–98 er búið að tala áður, eins og líka 122. lið.

Þá kemur 1917. Um tekjubálkinn er ekkert að segja, nema till. um að innheimta eftirstöðvar úr Vestmannaeyjasýslu, sem búið er að innheimta fyrir löngu. Svo er önnur till., sem jeg sje ekki ástæðu til að fara út í, því að jeg hefi fengið þær skýringar hjá einum háttv. yfirskoðunarmanni, að þeir hafi átt við annað en orðin benda til, og þar sem svo er ástatt, er auðsætt, að tilgangslaust er að ræða um þessa till.

Þá vilja yfirskoðunarmenn láta segja upp leigu á fossi einum í Þingeyjarsýslu, sem ekki hefir verið greidd leiga af um tíma. (Þorl. J.: Hvaða foss er það?). Goðafoss. Það hefir verið tekið við leigu fyrir 5 ár í senn. Yfirskoðunarmenn vilja láta segja upp af því, að ekki var greitt árlega. Það er ekki hægt að segja upp hjeðan af, er leigunni hefir verið veitt móttaka skilyrðislaust. Það getur vel verið, að það hefði verið rjettara að segja upp, er leigugreiðslan drógst. En það var ekki gert. Og nú er það ekki hægt, og því ekki til neins að gera till. um það.

Hinar tvær aths., 6. og 10., er ekki ástæða til að minnast á.

Þá kemur gjaldabálkurinn. Er þá fyrst 21. aths. Yfirskoðunarmenn fara mjög geystir og rásandi yfir því, að vegamálastjóri hafi skilað reikningum sínum fyrir árið 1917 síðar en vera átti. Jeg man ekki vel, hvernig orð þeirra falla, en þau eru mjög svo stór, eitthvað á þá leið, að „reikningurinn er alveg vitlaus og gefur skakka hugmynd um ástandið“ og þar fram eftir götunum. Yfirleitt hafa þeir alt á hornum sjer út af þessu. Jeg get nú ekki áfelst vegamálastjóra mjög fyrir það, þótt hann skilaði reikningi sínum 2 dögum eftir að lokið var landsreikningnum 1917. Það var í fyrsta sinni, sem þessi vegamálastjóri átti að gera reikninginn. Og hann er mjög umfangsmikill, eins og yfirskoðunarmenn hafa líka fengið smjörþefinn af, því að þeir hafa alveg verið í vandræðum með hann. En ef þeir ætla að heimta, að allir reikningar hafi verið endurskoðaðir áður en landsreikningarnir eru samdir, þá verða landsreikningarnir annaðhvort að koma ákaflega seint, miklu seinna en leyfilegt er, eða það verður að taka fjölda manna til að endurskoða þá fyrri hluta ársins og vísa þeim svo burt um það bil á miðju ári. En hvorug þessi leið er fær. Enda virðist það ekki gera til, þótt einhverjir reikningar sjeu óendurskoðaðir, er þeir fara til yfirskoðunarmanna. Það má eigi byrja síðar á samningi landsreikningsins en í maí eða júní ár hvert, og hann á að vera tilbúinn ekki síðar en í nóvemberlok. Er því ómögulegt að vera þá búinn að endurskoða alla reikninga áður. Yfirskoðunarmenn segja um þetta atriði, ef jeg má, með leyfi hæstv. forseta, lesa það upp: „Þessa tilhögun alla verðum vjer að átelja, og gera þá kröfu, að stjórnarráðið heimti reikningana nægilega snemma, til þess hægt sje að endurskoða þá í tíma og gera landsreikninginn rjettan samkvæmt þeim, að því leyti sem þeir reynast rjettir, svo að ekki komi fyrir, að flestallir liðirnir sjeu í ósamræmi við veruleikann, og meiri eða minni markleysa, eins og nú á sjer stað.“

Maður skyldi halda, að hjer væri meira en lítið athugavert við reikningana. En þeir eru alveg rjettir, og það viðurkenna yfirskoðunarmennirnir líka. En það, sem er tilefnið til allra þessara stóryrða, er það, að fje það, sem varið var til vegagerða 1917, komst þá ekki alt í reikninginn Og að reikningurinn sje ekki rjettur, eða „í ósamræmi við veruleikann“, er einungis bygt á athugaleysi yfirskoðenda og misskilningi þeirra á því, hvað landsreikningurinn á að vera og er. Hann á að eins að vera reikningur yfir tekjur og gjöld ríkissjóðs ár hvert.

Jeg verð að segja það um vegamálastjóra, að hans reikningar eru mjög góðir. Og þó að það komi fyrir í fyrsta skifti, sem hann á að gera þennan reikning, að hann komi 2 dögum of seint, þá verð jeg að segja, að það er engin ástæða til að gera neina ályktun út af því. Síðan hafa þessir reikningar komið í tæka tíð, ásamt yfirliti.

Þá er 25. aths., um bæjarsímann. Er þar til sama svar og við 58. aths. 1916.

Um 28. athugasemdina hefi jeg talað áður. En um 29. aths. er það að segja, að mig minnir, að yfirskoðunarmenn eigi ekki að fá fylgiskjöl með reikningunum, nema sjerstaklega sje beðið um þau og er þá auðvitað sjálfsagt að láta þau af hendi.