15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2253 í B-deild Alþingistíðinda. (2542)

123. mál, landsreikningarnir 1916 og 1917

Matthías Ólafsson:

Um leið og jeg þakka hv. fjárhagsnefnd fyrir till sínar út af athugasemdum okkar yfirskoðunarmanna landsreikninganna, skal jeg leyfa mjer að minnast á fáein atriði í ræðu hv. frsm. (M. G.).

Það er þá fyrst viðvíkjandi landsreikningnum 1916.

Í nál. sínu leggur fjárhagsnefnd til, að styrkurinn til verklegs náms á Hvanneyri falli ekki niður, og er það þvert ofan í það, sem yfirskoðunarmenn leggja til. Jeg skal, með leyfi forseta, lesa upp athugasemd endurskoðenda, á bls. 101 í landsreikningnum:

„Til verklegs náms á Hvanneyri eru veittar kr. 1200. Varið til verklegs náms kr. 577.55. Er hjer enn sem fyrri varið tæpum helmingi af styrknum til verklegs náms, en hitt gengur til annars kostnaðar við skólahaldið. Vjer verðum að leggja ríka áherslu á það, að nemendur stundi verklegt nám við skólann, og þótt eigi ætti að þurfa að kaupa þá til þess sjerstaklega, virðist oss þó, að vinningurinn við aukna verklega þekkingu mæli með því, að nemendum væri goldinn öllu rífari styrkur en verið hefir, ef það yrði til þess, að fleiri þeirra fengjust til að stunda námið.“

Sjest hjer enn sem fyrri, að styrknum hefir ekki nema að litlu leyti verið varið til verklegs náms, og var engin furða, að yfirskoðunarmenn vektu athygli á þessu Og ef ekki hefir verið ástæða fyrir þá að víta þetta, þá veit jeg ekki, hvað hefði verið ástæða að víta.

Svar stjórnarinnar við þessu var þannig (sjá bls. 128) :

„Eftir skýrslu skólastjóra voru mislingar þess að nokkru leyti valdandi, hversu lítið varð úr verklegri kenslu þetta ár, en annars virðast skólasveinar ekki fúsir til verklegs náms.“

Út af þessu ályktuðu yfirskoðunarmenn þannig: „Þar sem nemendur við búnaðarskóla þennan virðast eigi fúsir til verklegs náms, og ekki er varið svo miklu sem helmingnum af þessu fje, eins og fjárlögin ætlast til, virðist til lítils að veita fje í þessu skyni, ef hinu sama heldur áfram.“ Jeg verð að álíta, að þarna hafi yfirskoðunarmenn ályktað alveg rjett, og að það hafi verið skylda þeirra að láta þessa getið.

Annars verður þess vart á fleiri sviðum, að fje er hafið úr landssjóðnum og svo ekki varið til þess, sem á að verja því. Þetta tíðkast við ýmsar stofnanir, t. d. við Landsbókasafnið. Þar var hin tiltekna upphæð, 7000 kr., greidd úr landssjóðnum, en sáralítið keypt af bókum. Það, sem umfram var, hefði átt að greiða landssjóði aftur. Auk þess var veitt miklu meira en tiltekið var til bókbands, til að semja skrá, fyrir afskriftir og prentun á ritaukaskrá, svo og ljóss, hita o. fl.; átti að sjálfsögðu að greiða það, sem umfram var, úr landssjóði og leita aukafjárveitingar fyrir. En um bókakaupin er það að segja, að það virðist óþarfi að hefja fje til þeirra áður en nokkrar bækur eru keyptar, því líklegt er, að ekki þurfi að borga bækurnar fyr en reikningarnir koma fyrir þeim.

Jeg skal ekki fara langt út í aths. við landsreikninginn 1917, en að eins minnist á þrjú til fjögur atriði. Um leiguna af Goðafossi segir nefndin, að það virðist „verða að standa við svo búið“ Það kann vel að vera, að svo sje, en þá er það tómri vanrækslu að kenna, að ekki var búið að segja upp leigunni, og var þá ekki minni ástæða fyrir yfirskoðunarmennina að benda á þessa vanrækslu og víta hana enda hefir nefndin ekkert fundið að því sjerstaklega.

Þá telur nefndin ekki ástæðu til, að Alþingi geri ályktun út af 21. aths. yfirendurskoðenda, sem er um reikningsskil vegamálastjóra. En jeg verð að telja það alveg sjálfsagt, að stjórnarráðið heimti reikninga hans svo snemma, að á þeim verði bygt við samning landsreikningsins, svo annað eins ósamræmi geti ekki átt sjer stað framvegis eins og hjer átti sjer stað og sjá má af samanburðinum á bls. 84 í landsreikningum. Slík reikningsskil eru alveg óhæf.

Um 29. aths. er það að segja, að jeg hefði kunnað betur við, að nefndin hefði játað, að það væri venja að senda yfirskoðunarmönnum fylgiskjöl, í stað þess að segja, að svo sje ekki. Að minsta kosti á það að vera venja, og stjórninni ber skylda til þess, því hvernig á að endurskoða reikninga fylgiskjalalaust svo í lagi sje? Nú, hitt gæti nú verið vafamál, hvort ekki hafi stundum verið tregða á að fá fylgiskjöl, þó að eftir þeim hafi verið gengið. Um það geta yfirskoðunarmenn best borið. Það hefir jafnvel orðið ágreiningur um, hvort yfirskoðunarmenn voru ekki búnir að fá fylgiskjöl, sem aldrei höfðu komið þeim í hendur. En um það skal jeg ekki orðlengja meira.