15.08.1919
Neðri deild: 36. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

123. mál, landsreikningarnir 1916 og 1917

Matthías Ólafsson:

Jeg vil benda hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) á, að þær fjárupphæðir, sem hann talaði um, ættu að standa á reikningnum og síðan sem óborgaðar eftirstöðvar. Það, sem gert er á einu ári, á að vera á þess árs reikningi. Þannig á öll reikningsfærsla að vera, því að öðrum kosti er hún ekki rjett. Það getur verið, að það rjettist á mörgum árum, en nákvæmur verður reikningurinn aldrei, og því síður gefur hann ljósa hugmynd um, hvernig fje landsins er varið. En til þess er sundurliðun, að það sjáist. Mjer finst þetta liggja svo í hlutarins eðli, að það sje hálfhlægilegt að vera að deila um það, en þó virðist engin vanþörf á því.