11.09.1919
Neðri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2300 í B-deild Alþingistíðinda. (2599)

146. mál, varnir gegn berklaveiki

Sigurður Stefánsson:

Jeg býst við, að enginn hv. deildarmanna geti mælt móti nauðsyn þessa máls, sem hjer er um að ræða, nje neiti því, að brýn þörf sje, að þegar sje hafist handa til þess að reyna að stemma stigu fyrir þessari veiki. Um það býst jeg við að allir hv. deildarmenn sjeu sammála. Að því leyti hefi jeg því ekkert við till. þessa að athuga.

Hitt getur orkað meira tvímælis, hvort sú leið, sem hjer er farið fram á, að skipa milliþinganefnd, sje sú eina leið, sem heppilegt sje að fara, og að aðrar leiðir sjeu ekki tiltækilegar.

Hv. þm. Stranda. (M. P.), flutningsmaður till., hefir nú, eins og hans var von og vísa, mælt rækilega með málinu í þessu formi, því máli, að leita ráða til að stemma stigu fyrir berklaveikinni.

En jeg verð nú að álíta, að það liggi ekki svo í augum uppi, að ekki megi ná sama takmarki, þó ekki sje þegar skipuð milliþinganefnd. Það er alkunnugt um þessar milliþinganefndir, að þeim er ár frá ári hrúgað upp, en árangurinn vill ósjaldan verða minni en tilætlað var.

Hv. þm. Stranda. (M. P.) fór minna en skyldi út í það, hvert vera skyldi verkefni nefndarinnar. Samt fór hann nóg út í það til þess, að sannfæra menn um, að nefnd væri nauðsynleg, ef hann hefði jafnframt sannað, að þessi verkefni væri ekki unt að leysa með öðru móti.

Hann talaði aðallega um 4 atriði. Verð jeg um þau að segja, að þau mætti öll athuga eins gaumgæfilega, þótt ekki væri skipuð til þess milliþinganefnd.

Fyrst var utanför. Það er sjálfsagt alveg rjett athugað hjá hv. flm., að afla þyrfti meiri þekkingar en við höfum til brunns að bera hjer heima um ráðstafanir bestu manna erlendis gegn þessari veiki. En mjer skilst, að þessa þekkingu mætti fá án milliþinganefndar. Mjer skilst, að Alþingi gæti t. d. veitt einum hæfum lækni, líklega helst heilsuhælislækninum, utanfararstyrk í þessu skyni. Jeg skil því ekki, að heil nefnd þyrfti beinlínis að fara utan í þessu skyni.

Önnur röksemdin fyrir nefndarskipuninni var, að það þyrfti að breyta ýmsu í berklaveikislöggjöfinni. Sje jeg heldur ekki, að til þess að lagfæra og endurskoða hana þyrfti að skipa sjerstaka milliþinganefnd. Held jeg, að stjórnin með ráði og aðstoð viturra manna geti alveg eins vel leyst það verk af hendi.

Þriðja röksemdin var sú, að hjeraðslæknar þyrftu, undir umsjón nefndarinnar, að rannsaka og gefa nákvæmlega skýrslu um gang veikinnar í hjeraðinu, en þó sjerstaklega um ýms berklaveikishreiður, sem kynnu að vera þar. Jeg tel enga þörf að skipa sjerstaka milliþinganefnd í þessum tilgangi, því þetta mundi verða rannsakað jafnnákvænilega, þótt hún væri ekki. Jeg held, að hver hjeraðslæknir teldi það skyldu sína að gera þetta, og gæti hann framkvæmt rannsóknina eftir settum reglum, annaðhvort af landlækni eða stjórnar ráðinu.

Fjórða ástæðan var sú, að nefndin ætti að starfa að endurreisn heilsuhælisfjelagsins, sem starfaði að því, að koma upp varnarhæli fyrir berklaveika. Mjer finst sama að segja um þessa ástæðu sem hinar, að mjer finst hægt að framkvæma þetta án sjerstakrar nefndar, og þarf ekki annað til en góðan vilja stjórnarinnar og lækna landsins. Jeg verð því að segja um þessar ástæður í heild, að mjer finst þær ekki nægilegar til þess, að skipuð sje sjerstök milliþinga nefnd. Auðvitað mundi rannsókn, sem stjórnin gerði á eigin spýtur, kosta nokkurt og jeg tel víst, að þingið mundi ekki telja það eftir, en jeg álít, að það yrði ódýrara heldur en skipun milliþinganefndar. Þó vil jeg lýsa því yfir, að jeg mundi ekki horfa í kostnaðinn, ef jeg sæi, að þetta mætti gera betur með milliþinganefnd heldur en án hennar. Jeg hygg því, að þingið geti vel skilið við þetta mál með fullum sóma með því að vísa því til stjórnarinnar, og að hún hefjist nú þegar handa um að firra þjóðina því böli, sem á henni hvílir þar sem berklaveikin er.