11.09.1919
Neðri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2303 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

146. mál, varnir gegn berklaveiki

Flm. (Magnús Pjetursson):

Jeg get nokkuð leitt hjá mjer að svara hv þm. N.-Ísf. (S. St.), því það hefir hæstv. forsætisráðherra gert.

Viðvíkjandi hv. 1. þm. Eyf. (St. St.) þarf jeg ekki að tala langt mál, því hann var ekki að mæla á móti þessari till. Það, sem honum fanst mest vanta í greinargerðina og framsöguræðu mína, var, að ekki hefði verið gert ráð fyrir að auka rúm á heilsuhælinu. Já, það er miklu fleira en það, sem þyrfti að telja upp, ef hefði átt að telja alt upp, sem gera þarf eða best væri að hægt væri að gera, og því engin furða, þó jeg ekki tæki þetta atriði, sem er að eins eitt af mörgum og ef til vill ekki það mest varðandi.

Annars ætla jeg ekki að fara að blanda inn í þessar umr. deiluefninu, sem bæði er utan lands og innan, hvort betra sje að hafa eitt allsherjarheilsuhæli, eða þá fleiri. Þetta mál er algerlega sjerfræðilegs efnis og á ekki heima hjer, og vil jeg ekki blanda því inn í málið á þessu stigi þess. Ekki ætla jeg heldur að deila um það við hv. þm. (St. St.), frá læknisfræðilegu sjónarmiði, hvort betra sje að sjúklingarnir sjeu hafðir í sama loftslagi, eða þá að þeir breyti um. Að eins vil jeg benda á, að oft hefir verið talið betra og jafnvel nauðsynlegt, að sjúklingamir skifti um loftslag. (St. St.: Jeg hefi læknisorð fyrir mjer í þessu). Jeg ætla mjer ekki að fara að deila um svona sjerfræðileg efni hjer.

Þá skal jeg svara hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) nokkru. Hann var á sama máli og jeg um það, að hjer þyrfti eitthvað að gera, en hann vildi ekki láta skipa milliþinganefnd í það. En þar sem þessi hv. þm. (S. St.) vill láta stjórnina fá sjer aðstoðarmenn í þessu máli, þá sje jeg ekki betur en að rjettara sje, að mennirnir sjeu skipaðir í eitt skifti fyrir öll, og saman, heldur en að stjórnin færi fyrir hvert atriði að hóa mönnum saman. Það er alveg rjett, sem hv. þm. (S. St.) sagði, að jeg hefði ekki farið út í starf þessarar nefndar í öllum greinum. Jeg tók það fram, að jeg áliti ekki rjett að fara út í sjerfræðileg atriði í þessu máli. Skal jeg í þessu sambandi benda á orð læknisins á Vífilsstöðum, sem kunnugt ætti að vera um, hvað gera ætti í þessu máli, og ræður hann eindregið til, að milliþinganefnd sje sett í málið, þar eð það sje svo margbrotið Og sennilega hefir mörg milliþinganefndin verið skipuð hjer á landi, sem verið hefir óþarfari, og ekki hefir haft svona vandasamt og mikilvægt starf með höndum. Þá drap hv. þm. á, að sú aðferð, sem hann bendir á, yrði ódýrari fyrir ríkissjóðinn heldur en að skipa milliþinganefnd. En jeg efast mikillega um að ef stjórnin ætti eftir sem áður að njóta aðstoðar sjerfræðinga í þessu efni, þá yrði það ódýrara. Annars ætti það ekki að heyrast hjer í þinginu, að kostnaður yrði nefndur í sambandi við þetta mál, þar sem þessi veiki leggur margan hraustan manninn að velli, mann, sem stendur í broddi lífsins og er í fullri starfsemi í þágu þjóðfjelagsins. Og þar sem þessi veiki gerir óvinnufæra eða drepur marga efnilegustu menn þjóðarinnar, þá finst mjer það ekki eiga við að vera að tala um, að spara eigi fje til starfsemi, sem bjargað getur mörgum mannslífum. Að vísa málinu til stjórnarinnar getur ekki komið til nokkurra mála. Ef það ætti að koma að sama gagni og hjer, hlyti það að verða að gerast í þingsályktunarformi, þar sem stjórninni væri heimilað nægilegt fje til að framkvæma þessa rannsókn. Væri þá óvíst, hvort ódýrara yrði. Jeg geri ráð fyrir því, að það muni rjett vera hjá hv. þm. N. Ísf. (S. St.), að hjeraðslæknar væru fúsir til þess að rannsaka þetta mál eftir þeim reglum, sem landlæknir legði fyrir. En jeg álít ekki nóg að fela landlækni einum þessar reglur, þótt hann sje bæði duglegur maður og lærður, og teldi jeg betur farið, að slíkar reglur væru samdar af sjerfróðum mönnum, er hefðu rannsakað málið áður og undirbúið það. Ef það er meining hv. þm. (S. St.), að stjórnin taki sjer til aðstoðar sjerfróða menn, þá skil jeg ekki, hvað okkur ber á milli, nema ef vera skyldi nafnið milliþinganefnd. Jeg býst ekki við, að hv. þm. (S. St.) vilji binda hendur stjórnarinnar svo í þessu máli, að hún megi ekki taka nema einn sjerfróðan mann í þjónustu sína. Það hlýtur að vera ætlun hans, að hún megi taka eins marga og henni sýnist.