11.09.1919
Neðri deild: 61. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2306 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

146. mál, varnir gegn berklaveiki

Sigurður Stefánsson:

Jeg ætla mjer ekki að fara að fara í neinar kappræður um þetta mál, þótt jeg gerði athugasemdir við ræðu hv. flm. (M. P.). En þrátt fyrir rök hans hefi jeg ekki getað sannfærst um, að mín leið væri ótiltækileg. Jeg verð að játa, og skammast mín ekkert fyrir það, að jeg horfi dálítið í kostnaðinn. Því þegar jeg álít, að hægt sje að komast að sama takmarkinu með því að spara og með því að eyða, þá vel jeg auðvitað sparnaðarleiðina. Jeg vil t. d. taka siglinguna. Álít jeg málinu engu betur borgið, þó að þrír menn sigldu, heldur en þó að einn maður sigldi, en ef þrír menn sigla, getur kostnaðurinn skift tugum þúsunda, en ekki þó að einn maður sigli. Jeg treysti t. d. lækninum á Vífilsstöðum til þess að vinna þetta verk eins vel, þó að hann sigli einn, eins og þó að hann hafi tvo aðra menn með sjer, sem eru auðvitað ekki eins fróðir um þetta mál og hann.

Það er langt frá, að hægt sje að heimfæra það undir að drepa málið, þótt því væri vísað til stjórnarinnar. Þótt stjórnarlaust sje nú, raknar vonandi úr því. Jeg tel heldur ekki rjett að telja mál drepið, þótt því sje vísað til stjórnar, enda værum við Íslendingar þá illa farnir, ef við hefðum altaf slíkar stjórnir. Málum hefir líka verið vísað til stjórnar, og hefir það haft oft góðan árangur. Og þótt þessu máli væri því vísað til stjórnarinnar. þá sje jeg því enga hættu búna; það væri að gera henni illar getsakir, en það vil jeg ekki; hún veit það líka, að hún hefir vilja þingsins að baki sjer í þessu máli, og auðvitað mundi það ekki fremur telja fje eftir henni heldur en þó milliþinganefnd fjallaði um það. Jeg tel það ekki skifta svo litlu, hvað tímann snertir, sem gengur til þessarar rannsóknar, hvort þrír menn eða einn hafa hana á hendi. Skil jeg ekki, að læknirinn á Vífilsstöðum t. d. þurfi marga mánuði til þess að gefa stjórninni nægilegar upplýsingar í þessu máli, en hitt þykir mjer vel geta komið fyrir, að milliþinganefnd þyrfti að sitja, ef ekki nokkur ár, þá áreiðanlega marga mánuði, áður en hún ljeti nokkuð frá sjer heyra, og án þess að gera meira gagn. Auðvitað yrði álit hennar stærra um sig, því sá er nú orðinn vaninn, að álit þessara milliþinganefnda eru orðin stærri bækur en nokkrar húspostillur, og efast jeg stórum um, að þm., auk heldur aðrir, lesi nokkurn tíma slík álit til enda. Í þessu máli þarf framkvæmd en ekki skriffinsku. (M. P.: Fyrst verður að vita, hvað gera á). Jeg efast ekki um, að þeir menn, sem stjórnin kýs sjer til aðstoðar, viti vel, hvað gera á.

Að svo mæltu leyfi jeg mjer að afhenda hæstv. forseta svo felda rökstudda dagskrá:

Í því trausti, að landsstjórnin hefjist þegar handa til ráðstafana gegn berklaveikinni og leiti sjer aðstoðar sjerfróðra manna um þetta mál, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.