23.09.1919
Efri deild: 63. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (2632)

143. mál, fræðslumál

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Jeg vil leyfa mjer að skírskota til nál. á þgskj. 931, en þar er skýrt frá því, að mentamálanefnd hafi fallist á þingsályktunartill. og leggi til, að hún verði samþykt.

Tillagan fer fram á það að skora á stjórnina að endurskoða fræðslumálin yfir höfuð, og eru þau flokkuð þar í tvo aðalflokka.

Nefndin leit svo á, að rjett væri að sýna máli þessu fullkomna athygli, í þeirri von, að hægt yrði að bæta úr brestum þeim, sem eru á fræðslumálum vorum.

En því verður ekki neitað, að annmarkar eru jafnvel á öllum stigum fræðslunnar.

Fyrsti liður till. fjallar um barna- og alþýðufræðslu.

Eins og kunnugt er, hefir oft verið á það minst, að fræðsla barna og unglinga sje ekki í svo góðu lagi sem skyldi. Þykir vera lögð fullmikil áhersla á barnafræðsluna, en ekki eins á fræðslu unglinga, og eru þó unglingsárin besta þroskaskeiðið til þess, að nám komi að fullum notum.

Þyrfti þetta að komast í betra horf en verið hefir, og er málefni þetta vel þess vert, að það sje athugað rækilega.

Næst er talað um svo nefnda miðskóla eða hærri alþýðuskóla fyrir þroskað fólk. Eru taldir upp ýmsir skólar, t. d. kennaraskóli, gagnfræðaskólar, búnaðarskólar, og gert ráð fyrir því, að fyrirkomulag þeirra verði endurskoðað. Því næst er vikið að því, hvort ekki muni heppilegt og gerlegt að stofna alþýðuskóla í einum eða fleirum landsfjórðungum, fyrir landsfje.

Auk þessara skóla er hjer og vitanlega átt við kvennaskólana, og eru þeir ekki síður hafðir í huga en aðrir skólar, þótt fallið hafi úr að nefna þá.

Skal jeg í þessu sambandi minnast á, að alloft hafa komið fram raddir um það, að æskilegt væri, að landið kostaði einn eða fleiri alþýðuskóla í hverjum landsfjórðungi. Má benda á það, að varla getur komið annað til mála en að Flensborgarskólinn verði gerður sem fyrst að landsskóla. Hann hefir um langt skeið verið einn af bestu alþýðuskólunum og á því meira en skilið, að landið taki hann algerlega upp á sína arma.

Næsti liður er um mentaskólann.

Er þar fyrst tekin sú breyting á fyrirkomulagi hans, sem mest kallar að, sem sje að þremur efstu bekkjum hans sje tvískift, þannig, að önnur deildin verði málfræðisdeild og sögu, en hin náttúrufræðisdeild og stærðfræðisdeild. Er þetta gert til þess, að nemendur hans geti sem fyrst hagað námi sínu eftir því, í hverja stefnu þeir vilja beina því, hvort heldur til málfræðinnar og henni skyldra greina, eða til náttúrufræðinnar og fjöllistanna.

Eru ekki mjög fá dæmi til þess, að mjög duglegir piltar hafa verið álitnir að vera tregir af þeirri ástæðu, að þeir hafa aðallega snúið sjer að þeim námsgreinum, sem þeir hafa haft hug á, en vanrækt hinar.

Gallarnir á fyrirkomulagi því, er verið hefir á mentaskólanum, eru sjerstaklega tilfinnanlegir nú, þegar stúdentar eru búnir að missa Garðsstyrkinn, og útlit er fyrir, að hreint ekkert komi í staðinn, því stúdentar þeir, er ætla að stunda nám við fjöllistaskólann, verða að verja heilu ári til undirbúnings, eins og nú standa sakir, áður en þeir fá inngöngu í hann.

Nefndin hefir haft til meðferðar tvö erindi um þetta mál, annað frá rektor mentaskólans, en hitt frá tveimur vel þektum vísindamönnum, sem eru í miklu áliti, og hafa snúið huga sínum að umbótum á þessu.

Hafa þeir lagt til, að stofnaður yrði sjerstakur skóli, til að undirbúa þá námsmenn, er hafa í hyggju að ganga á fjöllistaskólann, þannig, að þeir geti komist strax inn í hann.

Rektor hallast, svo sem við mátti búast, að því, að rjettara sje, að þessi kensla verði sameinuð mentaskólanum, þannig að efri deild hans verði tvískift.

Þyrfti helst að koma þessari tvískiftingu á í haust. Hún kallar mjög brátt að, og má í því sambandi geta þess, að á þessu sumri hafa þó nokkrir stúdentar farið utan til að stunda nám við fjöllistaskólann, og eiga þeir sjálfsagt margir örðugt uppdráttar.

Þá er skorað á stjórnina að rannsaka, hvort eigi muni heppilegast, að kenslugreinir í þremur neðstu bekkjum mentaskólans verði hinar sömu sem þær voru áður en núverandi skipulag komst á skóla þennan.

Umræðurnar í hv. Nd. snerust sjerstaklega um það, hvort hafa skyldi í neðri deildinni latínu- og grískunám, eins og áður var.

Nefndin hjer hefir ekki hugsað sjer að ýta undir slíkar breytingar, þó hún telji ekki nema rjett, að þetta sje athugað.

Þótt latína og gríska sjeu fögur mál og afbragðsvel hæf til þess að skerpa gáfur manna, verður því þó ekki neitað, að önnur mál hafa meiri þýðingu. Latínu og grísku má kalla dauð mál, þó mikið af þeim lifi tungum þjóðanna og tæplega sje hægt að kalla mann fullmentaðan án þess að hann hafi haft veður af þessum tungum.

Þriðji liður tillögunnar heimilar stjórninni fje úr ríkissjóði til framkvæmdar því, sem í till. felst.

Í sambandi við þennan lið skal jeg geta þess, að nefndin hugsar sjer ekki, að milliþinganefnd verði skipuð í þessu skyni. En þrátt fyrir það getur altaf komið fyrir, að stjórnin þurfi að greiða fje fyrir ýms störf þessu viðvíkjandi, og er því sjálfsagt, að þessi liður sje einnig látinn standa.

Skal jeg svo ekki fara fleiri orðum um till. þessa, en vil, fyrir hönd nefndarinnar, leggja til, að hún verði samþykt.