28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í C-deild Alþingistíðinda. (3253)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Jónsson):

Þessir tímar eru byltingatímar. Það er öllum ljóst. Öldur þær, sem ófriðurinn hefir vakið, berast um heim allan. Þær öldur eru víða svo sterkar, að þær skola burt að meira eða minna leyti því fyrirkomulagi þjóðfjelaganna, sem áður hefir ríkt. Þær eru víða svo æðisgengnar, að þær eira engu, og því dynja hinar mestu hörmungar yfir þær þjóðir, þar sem þær eru sterkastar.

Gætnir menn í öllum löndum óttast bylgjubreytingar þessar. Við höfum lítt orðið varir við þær hjá þjóð vorri enn sem komið er. En vitanlega eru þær skamt undan landi, og ekki þarf mikið til að opna þeim víðar gáttir. Ef byrjað verður á byltingum forns skipulags, rekur hver byltingin aðra; og upphafsmönnum byltinganna getur orðið meira en nóg boðið áður en varir, og munu þá fremur kjósa, að alt hefði staðið í sama fari sem áður. Þetta býst jeg við að hinir 11 hv. þingdm. hafi ekki athugað. þegar þeir lögðu fram þá þingsályktunartill., sem hjer er til umr., og heldur ekki hinir hv. samnefndarmenn mínir, því að þá hefðu þeir ekki mælt með henni. Á rólegum tímum álít jeg minni hættu að stíga það spor, sem till.- menn vilja láta þjóðina stíga, en á óaldartímum. Á óaldartímum verða menn að vera varkárir.

Jeg varð, sannast að segja, hálfundrandi, þegar jeg sá, að till. þessi var fram komin, borin fram af nær því hálfri Nd. Fjöldi stórmála eru nú á dagskrá þingsins, og eru sum þeirra svo erfið, eða að minsta kosti eitt þeirra, að engin líkindi eru til, að þetta þing ljúki því. En þessi till., sem 11 hv. þdm. bera fram, fjallar um mál, sem í raun og veru er miklu stærra mál en nokkurt hinna annara mála er, sem þetta þing hefir til meðferðar. Þetta þótti mjer því undarlegra, þar sem engin rödd frá þjóðinni í þessa átt, mjer vitanlega, hefir borist til þingsins þessi síðustu ár. Hv. deild vildi fara virðulega með þetta mál, sem við var að búast; hún skipaði því sjerstaka nefnd í málið, og ætlaðist vitanlega til, að þessi nefnd athugaði málið og ræddi ítarlega. En hv. meðnefndarmönnum mínum hefir auðsjáanlega þótt það óþarfi. Einn nefndarmanna semur nefndarálit, les það upp fyrir nefndinni, og fjórir meðnefndarmenn mínir undirskrifa það þegar. Til þessa stórmáls hefir nefndin öll varið vart meira til funda en einni klukkustund. Hv. meiri hl. þykist víst hafa verið búinn að athuga þetta mál og gerhugsa áður. Vil jeg nú með nokkrum orðum athuga nál. hv. meiri hl.

Meiri hl. segir, að trúmál sjeu einkamál manna, en einkamál krefjist frelsis, sem ríkisvald megi ekki blanda sjer inn í, nje leggja hömlur á, nema til skaðsemdar horfi þjóðfjelaginu eða öðrum einstaklingum þess. Jeg er hv. meiri hl. sammála um þetta. En jeg sje ekki, að af þessum ástæðum þurfi að aðskilja ríki og kirkju. Mjer er það ekki kunnugt, að okkar þjóðkirkja leggi hömlur á trúarskoðanir manna. Ef svo væri, myndi jeg engu óragari skilnaðarmaður en meiri hl. — Meðan kaþólsk kirkja var ríkjandi hjer á landi var hún ekki þjóðkirkja í eiginlegum skilningi. Hún var ófrjálslynd um trúmál; miklu ófrjálsari en lútherska þjóðkirkjan, sem eðlilegt var. Lútherska kirkjan er bygð að nokkru leyti á trúfrelsi. Lúther bygði kenningar sínar á samviskufrelsi. En í kirkju, þar sem samviskufrelsi er fyrsti hyrningarsteinninn, þá er skoðanafrelsi vitanlega annar hyrningarsteinninn, trúarleg framþróun þriðji hyrningarsteinninn, og þá trúfrelsi hinn fjórði.

Vitanlega hefir lúthersku kirkjunni ekki verið jafnan ljóst, á hvaða hyrningarsteinum hún væri stofnuð. Margir af prestum hennar og trúarjátningafrömuðum hafa verið þröngsýnir. Meiri hl. segir, að ekki sje um trúarbragðafrelsi að ræða þar, sem einni kirkjudeild sje haldið uppi af ríkinu. Það er þó jafnan talið fylsta frelsi, þegar menn mega tala og breyta eins og þeim sýnist. Jeg hefi lítt orðið þess var, að kirkjan hjer á landi leggi bönd á orð og athafnir manna. Hennar vegna eru menn frjálsir, frjálsir með trúarskoðanir sínar, bæði leynt og ljóst. Hið íslenska ríkisvald fyrirskipar mönnum ekki nein sjerstök trúarbrögð. En það er að sjá af nál. hv. meiri hl., að hann líti svo á, að svo sje ekki, því að hann segir svo:

„Á meðan einni kirkju (hjer hinni „evangelisku lúthersku“), eða yfirleitt nokkurri kirkjudeild, er haldið uppi af ríkinu — og þar með allir landsmenn skyldaðir til að bera hana — er ekki um trúarbragðafrelsi að ræða í rjettum skilningi.“

Hv. meiri hl. kemur með alllanga skýrslu um þau lönd, þar sem aðskilin eru ríki og kirkja. En hvaða breytingu skilnaðurinn hafi haft í för með sjer í þeim löndum, minnist hann ekki á; hefir líklega ekki verið því nógu kunnugur, sem ekki var heldur von. En á þeirri fræðslu hefði okkur þó verið meiri þörf en á ríkjaupptalningunni. Okkur er ekki nóg að vita, að ríki og kirkja eru aðskilin í sumum löndum jarðarinnar; við verðum að vita reynslu þeirra, ef okkur á að koma sú þekking að nokkru gagni.

Að ríki og kirkja eru aðskilin í Ameríku styður lítið þá hugmynd, að oss sje nauðsynlegt að aðskilja ríki og kirkju. Meiri hl. tekur það rjettilega fram, að þjóðkirkja hafi aldrei verið í Bandaríkjunum. — Ameríkumenn eru sambland af öllum þjóðum jarðarinnar, sem tilheyra öllum trúarbragðaflokkum heimsins. Þar, sem svo er ástatt, getur þjóðkirkja vitanlega ekki átt sjer stað. Alt öðru máli er að. gegna með okkar litlu, samfeldu þjóð, uppalda í sömu kirkju. En hvernig hefir þessi fríkirkja Ameríkumanna reynst? Já, ófagrar eru margar þær lýsingar, er við höfum fengið frá hinni ísl. lúthersku fríkirkju í Kanada. Mörgum, er þekkja okkar þjóðkirkju hjer heima og íslensku fríkirkjuna í Kanada, virðist, að ekki myndi til bóta að skifta um fyrir okkur. Sú þekking, sem hingað hefir borist um íslensku fríkirkjuna í Kanada, mun hafa fjarlægt fríkirkjuhugmyndina mörgum. Kirkjan þar hefir verið þröngsýn æsingakirkja, er rifist hefir um trúarjátningar. Henni hefir og verið brugðið um að vera verkfæri einstakra manna. Ekki er það heldur alment álitið, að Frökkum hafi nein blessun hlotnast af aðskilnaði ríkis og kirkju. Þótt byltingaflokkar í Rússlandi og Ungverjalandi hafi numið alla ríkiskirkju úr lögum, þá ætti það ekki að vera okkur nein hvöt til breytinga í þessu efni. Við munum vart viðurkenna allar þær breytingar hollar, er gerast í þeim löndum nú.

Og þótt jafnaðarmenn í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hafi mál þetta á stefnuskrá sinni, þá sje jeg ekki, að við þurfum að láta þá leiða okkur í þessum efnum. Þingið 1909 samþ. samskonar till. og þessa. En það sama þing stofnaði líka tvö biskupsembætti, vígslubiskupsembættin. Um síðustu aldamót og fram til 1909 varð talsverð fríkirkjuhreyfing í landinu, en síðan virðist hún hafa dofnað mjög mikið. Sýnir þetta, að þegar þjóðin fór að hugsa sig betur um, hafi henni ekki litist á hreyfinguna; og hún hefir áreiðanlega ekki kært sig um, að stjórnin fari nú að vasast í fríkirkjumálinu. Ella myndi hún hafa rætt það meira síðan 1909 og skorað á stjórnina að gera eitthvað.

Meiri hl. segir í nál. sínu, að það sjeu sjerstakar ástæður nú fyrir hendi, er knýi oss nú til að taka hreina afstöðu og ákveðna til málsins. Þær ástæður segir hann vera annars vegar ástandið í kirkjunni sjálfri, sundrung og stefnubreytingar, nýjar hreyfingar og óskyldar lútherskunni; æski menn því höftin leyst. Hin ástæðan sje fjárhagsatriðið, sem nú þurfi sjerstaklega að taka afstöðu til, að því að nú sje verið að ákveða laun embættismanna. Annaðhvort verði að bæta launakjör presta, eða skilja að ríki og kirkju. Þessar sjerstöku ástæður, sem meiri hl. telur, vil jeg nú taka til sjerstakrar athugunar.

Þá er það fyrri ástæðan. Meiri hl. virðist telja það ókost á þjóðkirkjunni, að hún þrælbindur sig ekki við hinar gömlu trúarjátningar lúthersku kirkjunnar, að nýrra hreyfinga verður vart innan hennar, og að kirkjan skuli vera að breytast í frjálslynda átt. Sú kirkja er fastbindur sig við gamlar trúarjátningar, er ófrjálslynd; það gerir engin frjálslynd kirkja. Ef hv. meiri hl. vill, að hinir nýju fríkirkjusöfnuðir, sem myndast, ef ríki og kirkja verða aðskilin, eigi að rígbinda sig við gamlar trúarjátningar, þá gef jeg lítið fyrir trúfrelsi þeirra. Hvað trúarjátningarnar snertir, þá eru þær samþyktir kirkjuþinga og hafa jafnan verið að breytast frá því kristin kirkja var stofnuð.

Hv. meiri hl. telur, að stefnubreytingar og nýjar hreyfingar innan þjóðkirkjunnar sjeu þess valdandi m. a. að menn vilji höftin leyst. Jeg er þar á gagnstæðri skoðun. Einmitt vegna stefnubreytinganna og nýju hreyfinganna hafa menn fjarlægst sundurleysinguna. Nýju hreyfingarnar hafa gefið mönnum vonir um endurvakningu þjóðkirkjunnar. Íslensku þjóðinni er ekki þann veg háttað, að hún vilji hafa kirkju, sem er steingerfingur; hún er frjálslyndari en svo, þótt hv. meiri hl. virðist einmitt telja kyrstöðuna kost á kirkjunni. Þegar jeg var unglingur, hallaðist jeg að skilnaði ríkis og kirkju, því að mjer fanst þröngt um mig í þjóðkirkjunni, eins og hún var þá. En síðan hefir hún tekið breytingu, og frá mínu sjónarmiði er hún nú á rjettri leið, því að á rjettri leið tel jeg hana vera þegar hún tekur sífeldri framþróun, þegar hún hefir rúm fyrir nýjar skoðanir, er samþýðast skoðunum samtíðar hennar. Ef kirkjan gerir þetta ekki, en heldur sjer óbreyttri, þá getur hún ekki lengur átt samleið með mönnum; þá hætta menn að rækja hana. Líklega hefir það verið höfuðorsökin til þess, að menn fóru að vanrækja kirkjugöngur, að kirkjan var að dragast aftur úr tímanum og var ekki nægilega víðsýn. Frjálslyndir menn vilja, að kirkjan geti fært þeim „frelsisvínber seidd við sólarkyngi“, eins og skáldið kemst að orði, en ekki krækiber af lúsalyngi þrældómsins. Í þröngsýnni kirkju fá menn að eins krækiber þrældómslúsalyngsins.

Það er ekki einsdæmi með nútíðarkirkjuna, að hún breytist. Kirkjan hefir einlægt verið að breytast. Annars væri hún ekki komin fram á þennan dag. Þótt þröngsýnir kirkjumenn hafi oft og einatt viljað útiloka kirkjuna frá nýjum skoðunum, þá hefir þeim sjaldan tekist það til lengdar; þær hafa smeygt sjer inn í hana og brotið af sjer eldri hlekki. Þarf ekki að nefna sem dæmi annað en siðabótina. Guðfræðin þarf einlægt að vera ný guðfræði, ef menn eiga að geta samþýðst henni. Trúin er einstaklegs eðlis. Hver einstaklingur hefir sínar sjerstöku trúarskoðanir, eða trúartilfinningar. Hjá flestum eru skoðanir þær að einhverju smávægilegu mismunandi. Því álít jeg, að kirkjan þurfi að vera rúmgóð, svo frjálslynd, að hún geti hýst menn, sem ekki hafa í öllum atriðum sömu trúarskoðanir; aðeins að frumkjarni trúarinnar sje hinn sami.

Þar sem háttv. meiri hl. talar um sundrung þjóðkirkjunnar, þá er mjer ekki kunnugt um, að innan þjóðkirkjunnar sje neinn ófriður ríkjandi, nema ef meiri hl. telur kenningarfrelsi prestanna sundrung, og að allir prestar hafa ekki nákvæmlega sömu skoðun um sum atriði trúarinnar.

Þá er það önnur aðalástæða meiri hl. til skilnaðarins, fjársparnaðurinn. Vitanlega kostar kirkjan mikið, og mikill sparnaður væri að því að leggja hana niður. En ef menn skilja að eins að ríki og kirkju, en hafa kirkju og kosta hana eftir sem áður — og út frá því virðist meiri hl. ganga, — þá er sparnaðurinn enginn. Peningarnir fara þá frá einstaklingunum til safnaðanna og þaðan til prestanna, en með þjóðkirkjufyrirkomulaginu fara þeir frá einstaklingunum í landssjóð og þaðan til prestanna. Eigi fæ jeg sjeð, að þessi breyting sje sjerstaklega nauðsynleg nú, vegna launamálsins. Þótt þingið samþ. till., veit enginn, hverju þjóðin muni svara, og það verður nú hvort sem er að ganga frá launakjörum prestanna á þessu þingi, enda hefir engin rödd heyrst, sem hefir á móti því.

Jeg ætla fáu að spá um það, hvernig fara myndi um kirkjuna, ef hún væri fráskilin ríkinu. En hræddur er jeg um, að vegur hennar vaxi ekki við það.

„Hver söfnuður greiðir sínum presti kaup, eftir því sem um semst“, segir meiri hl. í nál. sínu, þegar búið verður að skilja kirkjuna frá ríkinu. Þetta er rjett. Þetta verður samningsmál. Það má búast við, að reynt verði víða að fá þá presta, er minst kaup setja upp, og jafnvel að lítt mentaðir menn eða lítt hæfir gefi sig fram til starfsins. Sömuleiðis er það athugavert, að presturinn, sem á að vera hinn leiðandi maður, eigi alt undir söfnuðinum. Það er stór hætta á því, að það geti annaðhvort gert hann að lýðskrumara, eða handbendi þeirra manna, sem mestu ráða um peningamál safnaðarins. Jeg held, að svo geti farið, að líkt verði þá gengi prestanna sem leiguprestanna á Sturlungaöld.

Biskupsembættið sem ríkisstofnun legst niður. Frá sjónarmiði meiri hl. er það sjálfsagt, og svo verður það, ef ríki og kirkja verða aðskilin. Það er dálítill sparnaður fyrir ríkið. En hvaða þýðingu hefir það fyrir kirkjuna? Frá biskupsvaldinu hefir kirkjan fengið talsverðan ljóma. Það viðurkendi aðskilnaðarpostulinn 1909, og við höfum átt marga okkar ágætustu manna á biskupsstóli. Hafa flestir biskupar okkar síðan um siðabót, og margir áður, verið þjóðnytjamenn, og sumir í röð fremstu lærdómsmanna, er breitt hafa út þekkingu meðal þjóðarinnar, og orðstír þeirra borist til annara þjóða.

Þar, sem kirkjunni er haldið uppi af ríkisvaldinu, veitir það henni festu, og virðing hennar verður meiri en ef einstakir söfnuðir halda henni uppi.

En þrátt fyrir það, þótt jeg líti svo á, að ekki sje vert, að þingið fari að vasast í aðskilnaði, og að hann muni enga blessun hafa í för með sjer, játa jeg fyllilega, að þjóðkirkjan hefir verið og er enn alt of sofandi. En því verður ekki móti mælt, að nýjar hreyfingar hafa smeygt sjer inn í kirkjuna. Hún er við það farin að rumska, og það gefur von um, að hún geti og muni vakna til fulls, og geti orðið ein aðalmenningarstofnun þjóðarinnar, eins og hún var um margar aldir eina menningarstofnunin. Prestar hennar voru um langt skeið nær því einu leiðandi menn og menningarfrömuðir þjóðarinnar, og þótt auðvitað margir þeirra hafi verið ljelegir, þá voru þeir þó fleiri góðir. Þessa verður að minnast.

Af þessum ástæðum, að mjer virðist eigi verða móti því mælt, að nú sje aftur að rofa fyrir degi í íslensku þjóðkirkjunni, þá vil jeg bíða enn um nokkur ár, án þess að nokkuð sje gert til að æsa menn móti þjóðkirkjunni. Vil jeg láta afgreiða málið með rökstuddri dagskrá, ekki síst þar sem þjóðin hefir ekki á síðustu árum látið í ljós neinar ákveðnir óskir nje vilja í þessu efni. Ef þjóðin hefði viljað, að þingið tæki málið fyrir, hefðu vafalaust heyrst háværar raddir um svona stórmál. En í svona máli verður auðvitað vilji þjóðarinnar að ráða.

Þegar þjóðin krefst, að þingið fari að undirbúa aðskilnað ríkis og kirkju, þá er málið tímabært, fyr ekki.