28.08.1919
Neðri deild: 48. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í C-deild Alþingistíðinda. (3257)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Sigurður Stefánsson:

Jeg þóttist hafa við byrjun umr. um þetta mál lýst nokkurn veginn afstöðu minni til þingsál.till., og gleður það mig, að nál. meiri hl. bætir nokkuð úr því, hve till. var óákveðin. Meiri hl. nefndarinnar hefir sem sje tekið til athugunar þau atriði, sem jeg lagði áherslu á, enda er hjer líka um það mál að ræða, sem er siðferðisleg skylda þingsins að hrapa ekki að. Þess vegna hefi jeg líka komið með brtt., á þgskj. 541, því jeg vil ekki, að Nd. ein samþ. þingsályktunartill., heldur Ed. líka. Hvernig málið fer þá, veit jeg ekki, en jeg býst við hverju einasta atkv. með brtt. minni. Jeg geng nefnilega út frá því, að menn vilji sem best ganga frá málinu.

Jeg skal taka undir það með háttv. minni hl., að það er nokkrum erfiðleikum bundið að taka þetta stórmál fyrir nú, og eins er það rjett, að raddir hafa ekki heyrst um það frá almenningi á síðustu árum, að svo ætti að gera. Einnig er jeg alveg á sama máli og minni hl. um það, að nýjar hreyfingar hafi gert vart við sig innan kirkjunnar. En þar sem hann telur þetta sem ástæðu fyrir því, að skilnaður eigi ekki fram að fara, þá er jeg nokkuð á öðru máli, þótt jeg telji tormerki á skilnaði og vilji ekki fara hvatvíslega að ráði mínu í því efni. Jeg sje heldur ekki, að meiri hl. geri það, nema ef vafi getur á því leikið, að málið sje að öllu leyti tímabært. En þegar jeg nú lít á glundroðann í kirkjunni, þá verður ekki annað sjeð, að minsta kosti frá „theoretisku“ og jafnvel „praktisku“ sjónarmiði líka, en að málið sje fullkomlega tímabært. Það stendur í stjórnarskránni okkar, að hin evangeliska lútherska kirkja sje þjóðkirkja hjer á landi, og að ríkið skuli að því leyti styðja hana og vernda, og verður þá að ganga út frá því, að sá stuðningur sje bundinn því skilyrði, að lútherska kirkjan sje bygð á þeim grundvelli áfram, sem hún hefir verið bygð á frá öndverðu. En þessu skilyrði hefir ekki verið fullnægt nú upp á síðkastið. Þær nýju hreyfingar, sem svo mjög hefir bólað á, hafa skapað það hugtak, sem menn hafa viljað tákna með orðunum „hin rúmgóða þjóðkirkja“, og meiri hl. notar meðal annars sem ástæðu til aðskilnaðar. Jeg er þar hinum hv. meiri hl. sammála og álít, að á seinni tímum hafi hin svo kallaða nýja guðfræði gert æði mikið til að raska þeim grundvelli, er lútherska kirkjan byggist á. Jeg tel, að sú „rúmgóða þjóðkirkja“ sje í raun og veru alt önnur kirkja, og þar sje sú trúmálastefna uppi, sem rífur niður fjölda af grundvallaratriðum kristindómsins og evangelisku-lúthersku kirkjunnar, vefengir guðdóm frelsarans, neitar raunveruleika upprisu hans, eða gerir hana að andartrúarfyrirbrigði, o. s. frv. Þegar kirkjan er komin á þann rekspöl, þá álít jeg hana ekki evangelisk-lútherska lengur.

Þessu held jeg ekki fram af því, að menn megi ekki hafa hverja trúarskoðun, sem menn vilja, heldur af hinu að jeg vil ekki, að sömu mennirnir, sem halda fram þessum nýju kenningum, geri tilkall til, að ríkið styðji þær. Og þegar svo er komið, að jafnvel æðstu yfirmenn kirkjunnar telja sig ekki bundna við grundvallarlög hennar, játningarritin, en gera jafnframt kröfur til, að evangelisk-lútherskaþjóðkirkjan, sem þeir rífa niður, ali þá á brjóstum sjer, þá er mjer nóg boðið. Þá vil jeg heldur skilnað; að minsta kosti hugsjónalega og frá þegnfjelagslegu sjónarmiði tel jeg það ósanngjarnt, að ríkið styðji þær kenningar, sem ganga í berhögg við grundvallaratriðin í kenningum evangelisk-lúthersku kirkjunnar, og að ríkisþegnarnir sjeu þannig skyldaðir til að gjalda skatt til að halda uppi þeim trúmálaskoðunum innan þjóðkirkjunnar, sem fara í algerðan bága við trúmálaskoðanir þeirra. Það er óneitanlega ekki gott ástandið í kristindómfræðslu lúthersku kirkjunnar, þegar einn presturinn segir barninu, að þessu eða hinu eigi það að trúa, en svo kemur annar, sem varar það við því; hverju á svo barnið að trúa? Einn segir við barnið, að það eigi að trúa á þríeinan guð. — Annar segir: „Nei, góða barn, þessu máttu ekki trúa.“ Einn neitar þrenningarlærdómnum, en skírir svo næstum daglega börnin í nafni heilagrar þrenningar. Og svona mætti lengi telja.

Þess vegna segi jeg það, að þótt jeg viti, að jeg sje kallaður ófrjálslyndur og þröngsýnn í trúmálum, þá er jeg svo frjálslyndur, að jeg vil alls ekki, að ríkið styðji þær trúmálaskoðanir, sem afneitar þeim grundvallaratriðum kristindómsins, sem evangelisk-lútherska þjóðkirkjan er bygð á.

Háttv. minni hl. talaði um, að nú rofaði fyrir nýjum degi í kirkjunni. Eigi hann þar við hinar nýju trúmálahreyfingar, þá tel jeg þær ekki til nýrrar eða blessunarríkrar dagrenningar, ef þjóðkirkjan verður ruslakista hjátrúar, vantrúar og vingltrúar, svo sem guðspeki, andatrúar og annara slíkra öfga og hindurvitna. Og jeg tel það rangt af ríkinu að styðja þá ruslakistu og vernda, undir því yfirvarpi, að hún sje evangelisk-lúthersk kirkja, og því sæmra að skilja. En á hinn bóginn tel jeg þó ekki rjett að flana að aðskilnaðinum, þótt hann sje hugsunarlega rjettur undir núverandi kringumstæðum. Hjer er um mikið vandamál að ræða. Vel má og vera, að trúmálaglundroðinn hafi að þessu sinni lifað sitt fegursta í kirkjunni hjer á landi,

Jeg hefi þá trú, og byggi hana á honum, sem öllu ræður, að þessar öldur, sem nú rísa hæst, evangelisk-lúthersku kirkjunni til tortímingar, lækki innan skamms og hverfi, eins og aðrar af líku tægi, sem áður hafa riðið yfir kirkjuna. Það er meira að segja útlit fyrir, að þær sjeu heldur að lækka; að minsta kosti hefir þýska vantrúarguðfræðin hægara um sig en fyrir nokkrum árum. Jeg tek mjer ljett, þótt mjer sje brugðið um þröngsýni og ófrjálslyndi í þessu máli Jeg vil heldur hafa það orð á mjer en að feykjast fyrir hverjum kenningarþyti, eða dansa eftir hverri angurgapapípu, sem blásin er. En af því að jeg held, að þjóðin sje svo hljóðnæm, að hún heyri, að falskt er spilað, og hún muni þess vegna ekki til lengdar leggja hlustirnar að blástrinum, þá held jeg, að kirkjunni stafi ekki hætta af þessu, þegar til lengdar lætur. Þess vegna get jeg tekið undir með þeim, sem telja það efasamt, hvort aðskilnaðurinn verði kristindómslífi þjóðarinnar til eins mikillar blessunar og áköfustu aðskilnaðarmennirnir telja víst. Hins er og ekki að dyljast, að skilnaðarhreyfingin er hjá sumum ekki sprottin af kirkjulegum eða kristilegum hvötum. En þrátt fyrir þetta mun jeg þó greiða till. atkv. mitt.

Eins og jeg tók fram í upphafi þessarar umr., þá tel jeg lítil líkindi til, að þetta mál eigi enn mikil ítök í hug og hjarta þjóðarinnar. En þó tel jeg það engan skaða, að hún sje spurð um álit sitt. Hv. meiri hl. hefir farið gætilega í sakirnar, og er þess ekki vanþörf. — Jeg vil þó fara enn gætilegar og leggja málið líka fyrir systurdeild vora, því að það er óviðkunnanlegt annað en að þingið standi alt á bak við svo mikilsverða till. sem þessa. Jeg vona því, að brtt. mín á þgskj. 521 verði samþ., svo málið fái þá meðferð, sem því ber.