10.09.1919
Neðri deild: 60. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í C-deild Alþingistíðinda. (3264)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Björn Kristjánsson:

Jeg tek til máls hjer í dag, af því að mjer finst nauðsynlegt, að sem flestar raddir komi fram í svo mikilsverðu máli sem þessu. Og jeg geri það sjerstaklega til að minna menn á þau gömlu orð, að í „upphafi skyldu menn endinn skoða“. Þessi orð eiga við um alla löggjöf, en ekki síst um þessa. Það er einmitt þetta, sem mjer hefir helst virst skorta á í umræðunum, hversu lítið hefir verið reynt að sýna fram á það, hvað við tæki eftir skilnaðinn, ef hann yrði framkvæmdur. En það er bráðnauðsynlegt að velta þessu fyrir sjer, einkum þar sem þingið á upptökin. Því það gæti þjóðin skilið sem bendingu þingsins um, að þessa leið skyldi fara.

En hvað tekur við?

Hvað tekur við, þegar klofin eru kirkja og ríki? Jeg sje ekki annað en að þjóðin verði á sama tíma prestslaus. Jeg er hræddur um, ekki síst þegar prestakjörin eru nú bætt, að prestar verði tregir til að ganga í þjónustu safnaðanna yfirleitt; þeir munu heldur vilja komast á biðlaun og seinna á eftirlaun. Í fjölmenni, svo sem í Reykjavík, ætti að vísu ekki að þurfa að óttast þetta, en úti um land er jeg hræddur um það. Þá yrði ríkið að sjá fyrir nýjum prestaefnum. En þar strandar líka. Því þegar útlit er fyrir skilnaði, er hætt við, að enginn ungur maður vildi sækja sjer fræðslu í guðfræðideild háskólans. Jeg er líka hræddur um, að trúfræðikensla einnar slíkrar deildar kæmi ekki öllum trúarflokkum að notum, en efast hins vegar um, að hvert trúfjelag hefði ráð á að hafa skóla fyrir sig. Mönnum mundi vafalaust finnast það fullmikið að borga presti sínum sómasamlega, þó ekki bættist þar við kostnaður við skólahald. Það er því öll ástæða til að efa það, að þjóðin fái lærða presta, eða að menn vilji leggja á sig kostnaðarmikinn og langan lærdóm, til að eiga stöðu sína á eftir undir almenningi, eins og hann gerist. Þetta gæti því orðið til þess, að þjóðin afvendist því, að leggja fram fje til að fræðast um trúmál. En það væri illa farið. Því ekkert er skaðlegra en það, ef ómentaðir menn gerðust trúmálafræðarar, enda hefir það gefist illa annarsstaðar.

Jeg get yfirleitt ekki hugsað mjer skilnaðinn skaðlaust fyrir þjóðina, nema með svo ríkum skilyrðum, að þau bindi kirkjuna ekkert minna en hún er nú bundin. Í fyrsta lagi held jeg, að kirkjurnar eða söfnuðirnir yrðu að halda ákveðinni, sameiginlegri trúarstefnu, eins og áður. Enda hefir farið svo um fríkirkjuna til þessa, að hún hefir haldið hjer gömlu trúarstefnunni. En stefna kirkjunnar má ekki vera alt of þröngsýn, — kirkjan verður að vera rúmgóð. (S. St.,: Hvað rúmgóð?). Kristindómurinn hefir á seinni árum lifað á því, að kirkjan var rúmgóð, hætti of mikilli þröngsýni.

Í öðru lagi verð jeg að álíta það skilyrði fyrir skilnaðinum, að allar kirkjueignir verði afhentar fríkirkjunni og jafnvel talsvert í ofanálag. Enn fremur að þjóðin, eða ríkið, ákveði lágmark á launum presta, og að söfnuðurnir legðu í sameiginlegan eftirlaunasjóð þeirra. Enn fremur yrði kirkjan sennilega að hafa sinn yfirmann eftir sem áður, hver sem borgaði honum. Yfirhöfuð verður að ganga svo frá trúfræðslunni, að henni sje ekki miður borgið en áður.

Jeg mundi auðvitað fús að fylgja skilnaðinum, ef jeg sæi, að hann væri til bóta. En jeg sje það ekki. Menn tala um frelsi í trúmálum — og á því er alt bygt. En hvers vegna geta menn ekki verið frjálsir, þó að þeir telji sig til ákveðins trúarfjelags? Þjóðkirkjan neyðir engan, og getur ekki neytt, til að trúa þessu eða hinu. Og það yrði líka erfitt að búa til fríkirkju eftir allra höfði. Jafnvel þó að ein trúarskoðun ríki í dag í einhverjum fríkirkjusöfnuði, getur hún verið alt önnur á morgun, og því tvístrað söfnuðinum. En jeg lít kann ske á kirkjuna nokkuð öðrum augum en menn alment. Jeg skoða hana sem einskonar almenna mentastofnun, einskonar háskóla, þar sem mönnum er frjálst að fræðast og frjálst að dæma um fræðsluna. Ætlunarverk kirkjunnar, að minsta kosti í seinni tíð, mun vera fremur að vekja menn til umhugsunar um trúmál, að vekja guðsneistann í manninum sjálfum, en ekki að neyða upp á menn ákveðnum trúarkreddum. Þess vegna verður kirkjan að vera frjáls og rúmgóð. Annars getur hún ekki vakið. En á síðari tímum hefir kirkjan einmitt beinst að því meira og meira að vekja. Þó er talað um deyfð í kirkjunni. Og það er rjett. Á síðari árum er minna hugsað um trúmál en þegar jeg var ungur. En til alls þessa eru gildar ástæður, og sú mesta, hvað prestar hafa verið sveltir, svo að þeir verða að hafa prestsverkin í hjáverkum, því þeirra kröfur til framfærslu hafa vaxið, eins og annara, því allir verða þó fyrst að geta lifað. Sú jafnaðarstefna hefir líka verið tekin upp á síðkastið, að launa öllum prestum jafnt — góðum og ljelegum. Við það hafa merkisprestarnir horfið, því að þeir hafa ekki borið hærra úr býtum en hinir. Það hefir heldur ekki gefist vel að hafa veitingarvaldið í höndum alþýðu — og ver en gamla fyrirkomulagið. Það stríddi á móti því, að merkisprestarnir gætu notið sín.

Jeg held, að það væri best gert fyrir trúmálin hjer að auka möguleikana til að vekja — bæði presta og aðra. En það verður gert með því, að senda bestu andans menn um landið, til að halda fyrirlestra og prjedikanir. (G. Sv.: Hverjir eru mestu andans menn?). Það á stjórnin að vita í hvert skifti.

Annars læt jeg mjer óviðkomandi að svara hv. frsm. (G. Sv.) eða öðrum. Jeg vildi að eins koma með þessar almennu athugasemdir, því jeg er hræddur um, að menn hafi ekki í þessu máli skoðað endinn í upphafinu. Að minsta kosti finst mjer rjettast að halda gamla fyrirkomulaginu meðan annað betra er ekki fundið í staðinn. Jeg veit að vísu alveg fallist á álit hv. meiri hl. um það, hvernig fara eigi að því að skilja, en hitt vantar, hvað við tekur á eftir.