16.09.1919
Efri deild: 57. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 650 í C-deild Alþingistíðinda. (3269)

82. mál, skilnaður ríkis og kirkju

Atvinnumálaráðherra (S. J.):

Háttv. 2. þm. G.-K. (K. D.) hefir nú tekið flest það fram, er jeg vildi sagt hafa. Jeg skal því ekki þreyta háttv. þm. á að endurtaka það, en vildi einkanlega fara örfáum orðum um formhlið málsins.

Þingsályktunartill. þessi var borin fram í hv. Nd. af 11 þm„ og þá ætlast til, að hún kæmi að eins frá þeirri deild. En hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) kom fram með brtt. þess efnis, að till. kæmi frá báðum deildum, eða þinginu í heild sinni. Var sú brtt. samþ., og því er till. hingað komin.

Jeg er þeirrar skoðunar, að í raun og veru bresti þingið, sem stendur, umboð kjósenda til þess að fara með mál þetta. Jeg álít, að þm. hafi umboð kjósenda til að fara með tiltekin mál, stærri mál, og að vísu einnig þau ótiltekin smærri mál, sem fram kunna að koma. En komi stórmál fram, sem þjóðin hefir ekki látið í ljós álit sitt um, álít jeg, að þm. eigi ekki að róta við þeim, nema að annaðhvort sje um auðsæja hættu að tefla, ef þeim er ekki hreyft, eða það hafi augljósan hagnað í för með sjer að hreyfa þeim. En hvorugt þetta á sjer stað hjer, svo nokkur sennileg rök renni til.

En ef litið er á till. sjálfa, er hún óaðgengileg, hvað formhlið hennar viðvíkur. Og sama er að segja um greinargerðina, þó að hún hafi ekkert gildi gagnvart stjórninni, heldur eigi að eins að vera henni til stuðnings. Vitanlega verður það næsti kirkju- og kenslumálaráðherra, sem tillögu þessari er beint til, ef hún verður samþ., en það verður erfitt fyrir hann að fara eftir henni, þar sem hún er ekki sundurliðuð, auk þess sem nú lítur út fyrir, að kirkja og ríki verði tengd enn fastar saman en áður, þar sem verið er að bæta upp laun presta, svo búast má við, að ekki verði önnur eins prestaekla og verið hefir.

Um efni málsins skal jeg ekki tala mikið; það hefir hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) gert, enda yrði of langt mál, ef farið væri út í það. En jeg skil ekki annað en að það hafi lakari áhrif á siðgæði og menningu þessarar þjóðar, ef farið verður nú að rjúka í skilnað ríkis og kirkju. — Þarf jeg ekki að færa nein sjerstök rök fyrir þessari staðhæfingu minni, því hv. þm. eru þýðingu þjóðkirkju vorrar, fyr og síðar, kunnugri en svo, að þess gerist þörf. Eftir minni skoðun á kirkjan að vera „konservativari“ en margt annað, svo hún geti staðið óhögguð fyrir hverjum kenningarþyt. Þar með er ekki sagt, að hún eigi að vera steingerfingur, og vitna jeg þá í það, sem sagt hefir verið á síðustu tímum, þó ekki undirskrifi jeg það alt. Kirkjan á að geta tileinkað sjer það besta á hverjum tíma, svo að hún verði langlíf og geti leitt þjóðina inn á hærra siðferðis- og menningarstig.

Jeg vona, að till. þessi nái ekki fram að ganga. Þessi þytur gæti þó ef til vill orðið til þess, að þjóðin færi að hugsa um málið og láta skoðun sína í ljós um það á þingmálafundum, og er ekkert á móti því. Þegar hún hefir gert það nokkuð alment, þá er fyrst komið til kasta þingsins að taka málefni þetta til meðferðar.