21.08.1919
Neðri deild: 41. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1168 í C-deild Alþingistíðinda. (3759)

131. mál, bæjargjöld í Reykjavík

Forsætisráðherra (J. M.):

Það var að eins um þetta atriði, hvort niðurjöfnunarnefnd hafi farið eftir reglum frv. Jeg held, að það hafi verið alveg ómögulegt; það hafi vantað nægilega tryggan grundvöll til þess, að hún gæti farið eftir því. Jeg hygg, að gert hafi verið ráð fyrir, að tekjur einstakra manna yrðu betur rannsakaðar fyrst. Það hefir því vantað allan fastan grundvöll undir tekjuálagninguna. Hefir því mikið verið bygt á hreinum getgátum hjá niðurjöfnunarnefnd. Enda var auðsætt á niðurjöfnunarskránni, að það voru a. m. k. sumstaðar getgátur, sem hún bygði á. Það ætti því ekki að spilla fyrir málinu hjer. Jeg held, að hv. deild ætti að rannsaka þetta mál. Það mun vera gott, að það gangi fram, jafnvel fyrir landssjóðinn sjálfan.