29.07.1919
Neðri deild: 20. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 1243 í C-deild Alþingistíðinda. (3893)

95. mál, rannsókn símaleiða frá Tálknafirði í Dalahrepp

Flm. (Hákon Kristófersson):

Jeg býst við, að þeir sjeu ekki margir hjer í hv deild, er þekkja til, hvernig landslag er á þeim stöðum, sem meint er með till. að leggja síma um; fyrir því vil jeg leyfa mjer, þar sem jeg er flm. þessarar till., að fara nokkrum orðum um, hvernig til hagar.

Eins og kunnugt er, liggur þessi hreppur nyrst í Barðastrandarsýslu. — Liggur hann út með Arnarfirði að vestanverðu. Eru þarna torfærur miklar, svo ekki er að eins örðugt að komast hreppa á milli, heldur er það jafnvel miklum örðugleikum bundið, sjerstaklega að vetrinum, að komast ferða sinna bæja á milli. Það er því ekki ófyrirsynju, að óskað er eftir, að sími verði lagður á þessum stöðvum. En eins og gefur að skilja, er það nauðsynjamál að rannsaka nákvæmlega, hvar best sje að sú lína liggi, og er því þessi till. fram komin, að undinn verði sem bráðastur bugur að slíkri rannsókn. Í till. er gert ráð fyrir, að síminn lægi frá Tálknafirði ofan í Hvestu í Dalahreppi og út í Selárdal. En hins vegar er engu slegið föstu um það, að hann mætti ekki alveg eins liggja frá Bíldudal, út svo nefndar Hvestufjörur. En að till. var orðuð svona, kemur af því, að þeir, sem best þekkja til vestur þar, telja það mjög vanhugsað að leggja símann frá Bíldudal vegna ýmsra torfæra. — Átti jeg tal um þetta efni við Forberg landssímastjóra, og heyrðist mjer á honum, að hann teldi ekki óhugsandi að leggja símann frá Bíldudal, og mundi jeg láta mjer það lynda, því aðalatriðið er, að síminn komi, og það sem allra fyrst. Hitt er auðvitað alveg á valdi símastjóra, hvort síminn verður lagður frá Bíldudal eða Tálknafirði. — Þetta finn jeg mjer skylt að taka fram, þar sem í till. er tekið fram, að hann eigi að leggjast frá Tálknafirði. Á því er brýn nauðsyn.

Í hreppum þessar eru miklar fiskiveiðar, og stunda menn þar róðra bæði vor og haust, og er þá oft mannmargt af aðkomumönnum. Lifa þessir hreppar mestmegnis á sjávarútvegi. Eins og gefur að skilja, þurfa bæði vermenn og útgerðarmenn að ná oft til síma, en hann er ekki nær en á Bíldudal. Er oft með öllu lítt framkvæmanlegt að ná t. d. frá Selárdal í síma á Bíldudal, því að það má varla heita fært yfirferðar að vetri til, nema í allra besta veðri, bæði sökum vegalengdar og ófærðar. Er því vaknaður mikill áhugi manna fyrir því, að fá síma um þessar slóðir, og mundu margir vilja leggja mikið á sig til þess að fá þessu máli hrundið fram.

Vona jeg því fastlega, að hv. deild taki þessari till. vel og samþ. hana óbreytta, því það getur ekki heldur haft neinn tilfinnanlegan kostnað í för með sjer.

Hv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hefir borið fram till., er að efni til fer nokkuð í sömu átt. Hefir hann óskað þess, að sú till. yrði sett í nefnd, en þar sem mín till. er öllu einfaldari og ekki hliðstæð, þá lít jeg svo á, að óþarft sje að vísa henni til nefndar; þó mun jeg ekki setja mig upp á móti því.

Jeg hefi átt tal við Forberg landssímastjóra, og hann tjáði mjer, að hann hefði ekkert á móti því, að rannsókn þessi færi fram svo fljótt, sem mögulegt væri. Með till. þessari er, eins og gefur að skilja, ekkert ákveðið, nær lína þessi yrði lögð; þó vil jeg taka það fram, að sjálfsagt teldi jeg, að það yrði gert samhliða því, er sími yrði lagður um Barðastrandarsýslu, er í ráði mun vera að gert verði á árunum 1922 og 1923, í seinasta lagi.