30.07.1919
Neðri deild: 21. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 836 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

14. mál, stofnun Landsbanka

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Frv. þetta gerir ekki mikla breyting á núgildandi Landsbankalögum, og þarf jeg ekki að fara mörgum orðum um það því að í nefndarálitinu er gerð grein fyrir þeim og sömuleiðis afstöðu nefndarinnar til þeirra.

Fyrsta brtt. nefndarinnar er sú, að í 4. gr. frv. falli burt orðin: „við sparisjóðsdeild“. Í þeirri grein er bankastjórninni heimilað að skipa sjerstakan gjaldkera við sparisjóðsdeild bankans. En nú hefir bankastjórnin óskað að fá þessu breytt þannig, að annar fjehirðirinn annist innborganir, en hinn útborganir. Nefndin sá ekki ástæðu til að hafa á móti þessari beiðni bankastjóranna, og hefir því borið fram þessa brtt. Annað nýmæli er það í þessari grein, að bankastjórn megi veita einum af starfsmönnum bankans umboð til að rita undir skuldbindingar í fjarveru tveggja bankastjóra. Nefndin telur ekki ástæðu til að leggja á móti þessu. Það hefir áður komið fyrir, að setja hefir orðið bankastjóra til þess eins, að skrifa undir slíkar skuldbindingar. Hjer er því í raun rjettri ekki um annað að ræða en formsatriði.

Þá er í 5. gr. frv. talað um laun bankastjóra, bókara og fjehirðis, og mun það vera aðaltilgangur frv. að bæta þau. Tveir af nefndarmönnum hafa skrifað undir nefndarálitið með fyrirvara um það atriði; mun annar þeirra telja launin sett of lág, en hinn of há. Að öðru leyti geri jeg ráð fyrir að þeir muni hvor um sig gera grein fyrir atkvæði sínu og ágreiningi.

Aðalbreyting nefndarinnar er við 8. gr. Í stjórnarfrv. er gert ráð fyrir, að stofnaður sje eftirlaunasjóður handa starfsmönnum bankans, ekkjum þeirra og ómegð, og að lagt sje í sjóð þennan 3% af ársarði bankans, þangað til sjóðurinn nemi 200000 krónum.

Nefndinni þótti hjer of langt farið, þar sem í lífeyrisfrv. stjórnarinnar er ætlast til, að eigi sjeu lagðar nema 50000 kr. úr ríkissjóði í lífeyrissjóð handa öllum starfsmönnum ríkisins, þeim er laun eiga að taka eftir launalögum. Leggur nefndin því til, að upphæðin sje færð mjög mikið niður og að greiddar sjeu eitt skifti fyrir öll 25000 kr. í sjóðinn: er þetta tillag þó tiltölulega mun ríflegra en það, sem ríkissjóður leggur fram í lífeyrissjóð handa sínum starfsmönnum. Í sambandi við þetta stendur önnur brtt. nefndarinnar, sú að allir sem fá fasta atvinnu við bankana eftir að lög þessi öðlast gildi, skuli skyldir að greiða í eftirlaunasjóðinn 3% af árslaunum sínum, gegn því að fá rjett til að öðlast styrk úr honum, og að sama rjett öðlist þeir, sem eru starfsmenn bankans þegar lögin ganga í gildi, ef þeir greiða gjald þetta frá þeim tíma. Þessi skyldukvöð er samkvæm kvöð þeirri, sem ætlast er til að hvíli á embættismönnum ríkisins, að sjá sjer fyrir ellistyrk. Nefndin sá þó ekki fært að ákveða árgjaldið í eftirlaunasjóðin hærra en 3% af launaupphæðinni. Henni þótti 5% eins og embættismönnum er gert að greiða, helst til hátt, þegar þess er gætt, að ýmsir sem í þjónustu bankanna ganga, eru ungir menn með lágum byrjunarlaunum. Um starfsmenn bankans, þá sem eru þegar lögin öðlast gildi, er það að segja, að þeim er gefinn kostur á að greiða gjald í eftirlaunasjóðinn og öðlast þá jafnframt eftirlaunarjett. Lengra er ekki farið hjer, því það mundi hafa þótt nokkuð harðdrægt að skylda þá til að taka þessa kvöð upp á sig.

Við 9. gr. ber nefndin fram þá brtt., að lögin skuli öðlast gildi 1. jan. 1920. Þykir henni eðlilegast, að svo sje.

Enn fremur þykir nefndinni rjettast, að burt sjeu feldar nokkrar lagatilvitnanir, sem í frv. standa, því þar er að ræða um lög, sem þegar eru fallin úr gildi, og þarf því ekki að upphefja þau að nýju.