07.08.1919
Neðri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

14. mál, stofnun Landsbanka

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Það hefir drifið að slíkur fjöldi af brtt. nú við 3. umr., að jeg verð að fara nokkrum orðum um þær.

Skal jeg þá fyrst minnast á brtt. á þgskj. 266, frá nefndinni í málinu, eða rjettara sagt frá meiri hluta hennar.

Úr því að gert er ráð fyrir, að að því geti rekið, að fjehirðar verði tveir við bankann, þá virðist rjettast, að stjórnarráðið skipi þá báða, en ekki að eins annan þeirra, eins og gert er ráð fyrir í 4. gr. frv. Brtt. gerir ráð fyrir, að aðstoðargjaldkeri verði skipaður. þegar þörf krefur og að bankastjórnin segi landstjórninni til og ákveði, hvenær sú þörf sje fyrir hendi. Það er gert ráð fyrir, að annar þessara manna nefnist fjehirðir, en hinn aðstoðarfjehirðir. Nefndinni þótti rjett að ákveða dálitlu lægri laun handa aðstoðarfjehirðinum en hinum, en sama mistalningarfje, því að gert er ráð fyrir, að þeir sjeu hliðstæðir og að aðstoðarfjehirðirinn sje ekki undir hinn gefinn. Þá virtist nefndinni og heppilegast, að eigi væri fastákveðið í lögunum sjálfum um verkaskiftinguna milli þessara tveggja manna, heldur ákvæði stjórnarráðið hana, að fengnum tillögum bankastjórnar. Telur hún það óheppilegt að einskorða hana nú þegar, því að sú skifting gæti síðar reynst óheppileg. Þessar breytingar, sem hjer ræðir um eru samhljóða skoðun sjálfrar bankastjórnarinnar, sem nefndin hefir rætt við um þær.

Enn fremur vill nefndin, að það komi skýrt fram, að bankastjórarnir eigi að njóta dýrtíðaruppbótar eftir sömu reglum og starfsmenn ríkissjóðs, en í frv. kemur þetta óskýrt fram, og ber því nefndin fram brtt., til að taka af allan vafa um þetta.

Hv. þm. Barð. (H. K.) gat ekki orðið samferða meðnefndarmönnum sínum um sum atriði, og ber því fram sjerstakar brú, á þgskj. 269.

l. brtt. hans er sú, að þegar skuli skipaðir tveir fjehirðar, og vill hann, að annar sje nefndur fjehirðir, en hinn gjaldkeri; ætlast hann til, að sá þeirra, sem hann nefnir fjehirði, taki á móti öllu fje, sem greitt er inn í bankann, en gjaldkeri hans á að greiða alt fje út úr bankanum.

Í sjálfu sjer er ekki mikið að athuga við þessa nafnagreining; en þó mun orðið fjehirðir og gjaldkeri vera viðhaft jöfnum höndum og í sömu merkingu í daglegu tali, hvort heldur um innborgunarstarf eða útborgunar er að ræða, eða hvorttveggja.

Það, sem rjeð því, að meiri hluti nefndarinnar fjell frá þessu orðalagi, var að það var alls ekki sýnt, að þetta væri hin einasta besta skifting starfsins, að annar hafi útborganir, en hinn innborganir. Það kom líka til mála að skifta öðruvísi. Þótti nefndinni því hyggilegra að hafa þetta ekki fastbundið með lögum. Sem dæmi skal jeg nefna það, að í frv., eins og það var upphaflega, var bankastjórn heimilað að skipa sjerstakan fjehirði við sparisjóðsdeildina. Bankastjórnin áleit það heppilegt, og hefir reynt það, en það hefir ekki reynst heppilegt fyrirkomulag til frambúðar. Eins gæti það nú sýnt sig, að óheppilegt væri að skifta ekki eftir inn- og útborgunum, og þá væri ilt, að það væri lögákveðið. Og að minsta kosti er engu spilt, þótt brtt. meiri hlutans verði samþykt.

Í sambandi við þetta stendur líka sú brtt. frá sama hv. þm. (H. K.), að laun beggja fjehirðanna, eða eins og hann nefnir þá, fjehirðis og gjaldkera, verði jafnhá. Þarf ekki að ræða þá brtt. sjerstaklega. En aftur er það rjett, frá sjónarmiði meiri hlutans, að þar sem annar er nefndur aðstoðarfjehirðir, þá sje hann settur skör lægra.

Þá er meiri hlutinn ósammála minni hlutanum um styrktarsjóðinn. Hv. þm. Barð. (H. K.) vill, auk 25,000 kr., einnig láta bankann leggja fram 1½% af nettoársarði bankans í næstu 10 ár eftir að lögin öðlast gildi. Það er ekki gott að vita, hve miklu það muni nema. En jeg hygg, að ganga megi út frá 500–600 þús. kr. gróða á ári. Verður þá þetta 9 þús. kr. á ári. eða alls 90 þús. kr. í viðbót við þessi 25 þús. kr. Þetta þykir meiri hlutanum alt of mikið, og hefir hann sjerstaklega tekið til samanburðar lífeyrissjóð embættismanna, þar sem ríkissjóður á að eins að leggja fram 50 þús. kr. í eitt skifti fyrir öll. Það er auðsætt, að ef leggja ætti fram 115 þús. kr. til styrktar sjóði handa starfsmönnum Landsbankans einum, en ríkissjóður að eins 50 þús. kr. handa öllum þeim embættismönnum, sem taka laun sín eftir almennum launalögum, þá er það rangt hlutfall. Og þó að þetta eigi einnig að ná til starfsmanna við útbú bankans, þá er það sama.

Þá vill sami hv. þm. (H. K.) hækka laun bankastjóranna allmjög. Fyrst og fremst launin sjálf, samkvæmt 3 brtt. á þgskj. 209 úr 6000 kr. upp í 8000 kr., og þar að auki samkvæmt brtt. á þgskj 268, greiða þeim 5% af ársarði bankans, sem myndi nema 10,000 kr. til hvers, svo framarlega sem gróðinn yrði 600,000 kr., eins og gera má ráð fyrir. Laun bankastjóranna myndu þá verða um 18,000 kr., og auk þess dýrtíðaruppbót, sem líklega gæti numið 3000 kr. á ári. Laun því alls um 21,000 kr. á ári. Þetta þykir meiri hlutanum of hátt. Hv. þm. Barð. (H. K.) hreyfði þessu þegar í nefndinni, en meiri hlutinn gat ekki gengið inn á það. Hann getur vel unað við það, sem lagt er til í stj.frv., að föstu launin sjeu 6000 kr. og 5% af ekki hærri upphæð en 300,000 kr. Má þá gera ráð fyrir, að launin yrðu 11 þús. kr. föst, auk dýrtíðaruppbótar, svo að launin yrðu alls 14,000–15,000 kr. Það þótti meiri hlutanum nokkurn veginn sæmilegt. Það er hærra en hæstu laun, sem greidd eru nokkrum embættismanni landsins, og er rjett að miða nokkuð við það. Það er að vísu vitanlegt, að erlendir bankar, og jafnvel Íslandsbanki, gjalda hærri laun. En þar til er því að svara, að það eru venjulegast stærri stofnanir. Annað er það, að hjer er um banka að ræða, sem er eign hins opinbera, og er þá rjett að launa starfsmönnum hans eftir líku hlutfalli og öðrum starfsmönnum hins opinbera, en þó þannig, að þeir verði hæstir.

Í samræmi við þetta getur meiri hlutinn ekki gengið að brtt. á þgskj. 268, nje heldur brtt. á þgskj. 265. Og sama er að segja um brtt. á þgskj. 216. Þar er atriði, sem hv. 1. þm. Árn. (S. S.) gat ekki orðið nefndinni samferða um viðvíkjandi launum bankastjóranna. Hann vill færa þau niður frá því, sem stjórnin hefir áætlað, um 1% af ágóðanum. Það myndi, eftir því sem ætla má, muna um 1000 kr. á ári fyrir hvern bankastjóra, svo að föstu launin yrðu 10,000 kr., auk dýrtíðaruppbótar.

Þá er enn ein brtt., á þgskj. 279, sem gengur út á það, að allar opinberar stofnanir og sjóðir, sem hafa handbært fje, skuli geyma það hjá Landsbankanum eða útbúum hans, ef staðhættir leyfa, og enn fremur starfsmenn ríkisins, undir sömu skilyrðum. Og svo loks, að Landsbankinn einn, með útbúum, hafi heimild til að taka við tryggingargeymslufje (depositum). Um þessa till. hafa nefndarmenn ábundið atkvæði. Jeg tala í eigin nafni, er jeg segi, að jeg get alls ekki gengið inn á þessa brtt. Er það aðallega vegna sparisjóðanna úti um landið. Þeir hafa nú heimild til þess, samkvæmt lögum, að ávaxta ómyndugra fje og opinbert fje. Þeir eru í töluverðum vexti, og lítur út fyrir, að þeir geti í sumum hjeruðum bráðlega fullnægt peningaþörfinni. Væru þessi hlunnindi tekin af þeim, yrði það til að rýra töluvert hag þeirra. En það er gott, að þeir hafi ómyndugra fje til ávöxtunar. Það stendur oft lengi á vöxtum, jafnvel alt að 20 ár. Þess vegna yrði það töluverður hnekkir fyrir sparisjóðina að missa þessa heimild. Hið sama er um opinbert fje, t. d. fje sjóða og stofnana. Og til dæmis um sjóðina get jeg nefnt það, að sjóður, sem á fyrir sjer að verða miljónasjóður, er ávaxtaður í sparisjóði. Ef breyta ætti þessu og afnema með lögum, gæti jeg alls ekki gengið inn á það, því að það sýnist hart að gengið gagnvart þessum þörfu stofnunum, sparisjóðunum.

Það sýnist líka vera undarlegt að veita einni stofnun einkarjett til að ávaxta fje. Það er óeðlilegt að útiloka allan „konkurrence“. Og það er ekki búmannlega hugsað, fyrir hönd þess opinbera, að einskorða, hvar fje þess skuli ávaxtað, án þess að neitt sje hugsað fyrir kjörunum, því að ef ein stofnun fær einkarjett á ávöxtun þessa fjár, er hætt við, að sú sama stofnun geti haft tilhneigingu til að skamta vextina úr hnefa. Það er að vísu ein undantekning, þessi: „ef staðhættir leyfa‘‘. Jeg sje ekki vel, hvernig þetta ber að skilja. Staðhættir leyfa altaf að senda fje með pósti frá einum stað til annars. Þessi orð eru því óheppilega valin, eiga alls ekki við og ættu að falla burtu.

Hvað snertir starfsmenn ríkisins, þá er ætlast til, að þeir „geymi þar alla þá peninga, sem þeir hafa undir höndum fyrir ríkið“. Jeg veit ekki til, að starfsmenn ríkisins megi geyma fje ríkisins í bönkum. Þeir eiga eftir gildandi reglum nú, að skila af sjer jafnharðan í ríkissjóð. Hjer er þeim gefin heimild til að leggja fje ríkisins á vöxtu en jeg vil alls ekki, að þeim sje gefið neitt undir fótinn um það.

Ákvæðið um tryggingargeymslufje gerir í sjálfu sjer ekki mjög mikið til, en þó getur það verið mjög óþægilegt, að enginn megi geyma „deposita’‘ nema Landsbankinn. Það getur jafnvel gert að verkum, að menn geta ekki uppfylt þetta skilyrði, að setja tryggingu, í tæka tíð, vegna þess, að langan tíma getur tekið að flytja fjeð. En þetta kemur sjaldan fyrir, og jeg legg ekki mikið upp úr því.

En aðalatriðið fyrir mjer er það, að jeg vil alls ekki taka af sparisjóðunum þann rjett, sem þeir hafa til að ávaxta opinbert fje og fje ómyndugra.