07.08.1919
Neðri deild: 27. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

14. mál, stofnun Landsbanka

Jörundur Brynjólfsson:

Jeg hefi ásamt fleirum leyft mjer að koma fram með brtt. á þgskj. 279. Frsm. (M. G.) lagði á móti henni, og þótti mjer það furðu gegna, því í raun og veru er hún svo sjálfsögð, að það hefði ekki átt að þurfa að koma fram með hana öðruvísi en sem sjálfsagðan lið í frv. Það vita allir, að mikið fje er ávaxtað á öðrum stöðum en í Landsbankanum, og hversu mikils Landsbankinn fer á mis með því fyrirkomulagi er ekki gott að segja. Till. er því fram komin til að hlynna að Landsbankanum, þessari þjóðarstofnun. Hygg jeg, að samþykt till. muni ekki hindra neitt vöxt sparisjóðanna, því það er ekki tilætlun okkar að svifta þá fje, heldur að opinberir sjóðir, sem eru ríkiseign, geymist í Landsbankanum, og að fje það, sem opinberir starfsmenn hafa með höndum fyrir ríkið, ávaxtist þar. En þar, sem ekki er auðvelt að koma fje á vöxtu í Landsbankann, þar ávaxti sparisjóður það. Enn fremur er það meining okkar, að sparisjóðir, eftir sem áður, fái að ávaxta t. d. brunabótasjóði og þess háttar.

Það er ekki rjett, sem haldið hefir verið fram, að þessi till. sje óþörf vegna þess, að sparisjóðir, þar sem þeir eru komnir á fót, fullnægi peningaeftirspurninni. Það sanna tilmælin um stofnun nýrra útibúa, sem drífa að hvaðanæfa, að svo er ekki. Og t. d. er nú komið útibú á Selfossi, þó að einhver stærsti sparisjóður landsins sje á Eyrarbakka.

Við ætlumst ekki til þess, flutnm., að embættismönnum ríkisins sje heimilað að geyma fje ríkisins öðruvísi en þeim er heimilt samkvæmt fyrirskipunum þeim, er þeir hafa fengið frá stjórnarráðinu, og ætlumst við til, að þá stund, sem fjeð er geymt, sje það í Landsbankanum, eftir því sem staðhættir leyfi. Nú geyma þeir það oft hingað og þangað meðan þeir eru að draga nokkra upphæð saman. Sjálfsagt er, að þeir vextir, sem af fjenu koma, renni til ríkisins.

Jeg hygg, að síðari liður till. þurfi ekki að valda neinum erfiðleikum í viðskiftum, þótt fyrirskipað sje að tryggingargeymslufje sje geymt í Landsbankanum. Þeir samningar, sem áður hafa verið gerðir, ættu að mega standa, þótt hún yrði samþ. Svo finst mjer ekki heldur rjett að gera ráð fyrir, að Landsbankinn notaði sjer þessa lagaheimild til að halda niðri vöxtum, þótt ekki sjeu hjer fyrirmæli um það, hvaða vexti hann skuli greiða og græða þannig fje á óheiðarlegan hátt.