11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (560)

14. mál, stofnun Landsbanka

Stefán Stefánsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram brtt. á þgskj. 327, við brtt. á þgskj. 324. Er hún til þess að fyrirbyggja, að sú till. geti að nokkru leyti hamlað vexti og viðgangi sparisjóðanna. Að vísu gat hv. flm. brtt. þess við 2 umr., að þetta væri alls engin hætta og myndi alls ekki hindra sparisjóðina í að vaxa og dafna. En jeg er ekki trúaður á það. Mjer finst það liggja í augum uppi, að svo framarlega sem stjórnarráðið vill amast við að sparisjóðirnir hafi þau rjettindi, er þeim eru veitt með lögunum frá 3. nóv. 1915, þá sje sú heimild gefin því í þessari till., eins og hún er. Jeg flyt þessa till. af því, að mjer er ant um þessar stofnanir, og mjer heyrðist við síðustu umr., að öllum hv. deildarmönnum væri ant um þær. Enda hygg jeg rjett það, sem hv. frsm. (M. G.) sagði, að sparisjóðirnir væru augasteinar hjeraðanna, því að engar stofnanir munu koma þeim fjárhagslega að meira gagni. Má því ekki gera neitt til að hindra vöxt þeirra og viðgang. Til þess að þetta geti ekki komið fyrir hefi jeg leyft mjer að bera fram brtt. þessa. Vona jeg, að hún verði ekki til að lengja mikið umræður, en óska, að hún verði samþykt. Um önnur ákvæði till. á þgskj. 324 skal jeg ekki deila. Þau hafa fengið andmæli frsm. (M. G.), og ætla jeg ekki að blanda mjer inn í þær umr.