11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

14. mál, stofnun Landsbanka

Benedikt Sveinsson:

Jeg skal ekki tefja deildina með langri ræðu. Hæstv. forsætisráðh. (J. M.) kom með þá athugasemd, að ekki væri tilhlýðilegt að koma með lög, sem hölluðu á Íslandsbanka, því að landið fengi þaðan lán, og gætu slík lög veikt lánstraustið. Jeg get ekki felt mig við, að þingið láti það hafa áhrif á skoðun sína, þótt eitthvað kæmi í bága við hagsmuni Íslandsbanka. Jeg sje ekki, að landssjóður sje sá hættugripur, að ekki sje óhætt að lána honum nokkrar krónur, eða þótt allmikið fje væri, heldur tel jeg hann einmitt öruggasta skuldunaut, sem bankinn getur skift við. Jeg býst heldur ekki við, að lánstraust Íslands sje svo illa farið, að það þurfi að ganga með grasið í skónum á eftir einum banka og þori ekki að setja lög um neitt, sem ætla mætti að verða kynni bankanum á móti skapi. Mjer líst ekki á, þegar farið er að hampa þessari hræðu opinberlega, og það af hæstv. stjórn. Jeg get þá hugsað mjer, að sneyðast fari um einurðina meðal eignasmárra þingmanna, sem við bankann þurfa að skifta, t. d. þurfa víxil eða lán, þegar landsstjórnin sjálf þorir ekki landssjóðs vegna að tryggja hag landsins í jafnsjálfsögðu atriði sem því, er hjer liggur fyrir.

Háttv. þm. Barð. (H. K.) skírskotaði til mín um það, hvort till. hans um gjaldkerana væri í samræmi við skoðun bankastjórnarinnar eða ekki. Jeg get sagt það, að það var rjett hjá hv. þm. (H. K.), að bankastjórnin taldi rjettara, að stjórnarráðið skipaði báða gjaldkerana. Hún vildi komast hjá því að gera upp á milli þeirra og skaut þessu því til stjórnarinnar. En munurinn á skoðun bankastjórnarinnar og till. háttv. þm. Barð. (H. K.) var að eins orðamunur. Hann vildi hafa aðra nafnagreining, sem jeg sje reyndar enga annmarka á og litlu mun skifta.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) var mjög viðkvæmur fyrir viðskiftafrelsi manna og vildi á engan hátt láta skerða það. (E. A.: Ekki að nauðsynjalausu). Það er svo víða skert viðskiftafrelsi manna, og er altaf deilumál, hvort nauðsyn rekur til eða ekki. Jeg lít svo á, að þegar slíkt verður til að auka almenningsheill, en hins vegar skerðir ekki hagsmuni manna, þá sje full ástæða til að skerða þetta viðskiftafrelsi. En svo er ástatt hjer. Það er verið að efla og auka þjóðarstofnun, en mönnum má á sama standa, hvar þeir geyma fje sitt, ef kostirnir eru líkir. Jeg vona, að hv. þm. (E. A.) geri ekki meira að gamni sínu með slíku tali.