11.08.1919
Neðri deild: 30. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (570)

14. mál, stofnun Landsbanka

Forsætisráðherra (J. M):

Háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv.) er bankastjóri við Landsbankann og vill þess vegna á allan hátt efla hann og auka. Það er ekki nema gott og blessað. En jeg held, að hann hafi misskilið mig algerlega. Hann virtist skilja mig svo, sem jeg væri að draga einurð og kjark úr þinginu og bæri fyrir skuldir ríkissjóðs til Íslandsbanka. Jeg skil ekki, hvernig hann hefir fengið það út úr ummælum mínum.

Jeg veit ekki, hvort átt var við mig, þegar háttv. þm. (B. Sv.) talaði um þingmannaræfla, svo jeg viðhafi hans eigin orð, sem þyrftu að fá lán í Íslandsbanka og mistu með því sjálfstæði sitt í bankamálum á þingi. Ef jeg kæmist í neyð og væri hræddur um að Íslandsbanki keypti ekki af mjer víxil nema með þessum kostum, þá reyndi jeg að snúa mjer til Landsbankans. Jeg vona, að hv. þm. (B. Sv.) gerði sitt til að forða sjálfstæði mínu.

Annars tel jeg algerðan óþarfa að hafa leitt umræður í þessa átt; jeg sje enga ástæðu til, að þess hefði þurft. Jeg vona, að þessi brtt. verði feld, því í raun og veru er hún ekki frambærileg.