25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

14. mál, stofnun Landsbanka

Kristinn Daníelsson:

Vjer höfum hjer fyrir framan oss heilt frv., en í umræðunum verður ekki vart við nema eina grein frumvarpsins, 8. gr. Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) benti á, að stefnan ætti að vera sú, að gera Landsbankann sem sterkastan og geyma alt opinbert fje þar. En þá á jeg bágt með að skilja ástæðurnar til, að hann tjáði sig fylgjandi brtt. og kvaðst greiða henni atkvæði. Stefnan, sem hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) játaði sem sína stefnu, og brtt. útiloka hvort annað. Ef brtt. er samþykt, er stefnunni afneitað. Aðalatriðið í brtt. eru orðin: „að öðru jöfnu“. Um leið og Landsbankanum eru gefin forrjettindi er öðrum með þeim orðum gefinn rjettur til að taka þau af honum. Landsbankinn tæki auðvitað við opinberu fje eftir sömu reglum og hann tekur við öðru innstæðufje. En svo er eins og ýtt undir aðra til að keppa við hann. með því að bjóða opinberum sjóðum t. d. ¼% hærri vexti. Þetta gæti auðveldlega orðið til, að Landsbankinn misti fjeð. Landsbankanum er reyndar ekkert aðalatriði þessi ¼%. Það skiftir engu fyrir hann og fyrir hvorugan bankann. Aðalatriðið eru þau auknu viðskifti, sem þessu væru samfara, og hagurinn af því að hafa fjeð í veltu. Jeg get því ekki annað sjeð en að stefnan útiloki það, að opnaðar sjeu þessar hliðardyr fyrir opinbera sjóði. Sama er að segja um ,,deponeraða“ fjeð. Mjer finst það vantraust á Landsbankanum að trúa honum ekki til að taka við því.

Hv. þm. Snæf. (H. St.) talaði um, að Landsbankinn myndi oft eiga örðugt með að svara út eftir skamman tíma háum fjárhæðum. En það mundi gilda alveg hið sama, þó að háar fjárhæðir til skamms tíma væru lagðar á Íslandsbanka. Báðir bankarnir má auðvitað búast við að taki að eins við slíkum háum fjárhæðum, til skamms tíma með sjerstökum samningi.

Það er engin ástæða til að ætla, að Íslandsbanki reynist tregari að lána ríkissjóði, ef frv. verður samþykt óbreytt. Það er blátt áfram siðferðisleg skylda Íslandsbanka að lána landinu. Hann hefir keypt seðlaútgáfurjett sinn því verði, að gera í móti landinu alt gagn, sem hann getur. Íslandsbanka mun ekki þykja það neitt óeðlilegt, að landið styrki sína eigin stofnun, Landsbankann, með hverju heiðarlegu móti, sem unt er. Það hljóta allir að sjá, að Landsbankinn verður sterkari fyrir þetta einkaleyfi, þó að hann með því einu verði auðvitað ekki gerður nægilega sterkur, svo sem þyrfti. En þetta miðar í rjetta átt, að efla Landsbankann með auknu veltufje. Þetta er stefna frumvarpsins, en hana er nú verið að gera tilraun til að fella burtu með brtt., sem að vísu lætur lítið yfir sjer en er þó engu að síður mjög varhugaverð.