25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

14. mál, stofnun Landsbanka

Halldór Steinsson:

Jeg þarf ekki að svara mörgu af því, sem hjer hefir verið talað, en jeg ætla þó að segja örfá orð um einstaka atriði.

Hv. þm. Ak. (M. K.) misskildi í brtt. orðin „að öðru jöfnu“ Virtist hann skilja þau á þann hátt, að ef 2 útibú væru á sama stað, stæði á sama, í hvort þeirra fjeð væri lagt inn. Auðvitað er meiningin sú, að fjeð sje lagt inn í Landsbankann, nema Íslandsbanki bjóði betri kjör. Mun enginn annar en hv. þm. Ak. (M. K.) hafa skilið orð þessi á annan veg.

Þá talaði hann um ákvæðið í 8. gr. frv., „nema staðhættir banni“. Virtist mjer hann vilja fá því breytt. En mjer virðist það enga þýðingu hafa, því póstsamband og símakerfi landsins er nú komið í það horf, að óhugsanlegt er, að staðhættir banni, að fjeð verði lagt inn í Landsbankann. Málsgrein þessari er því algerlega ofaukið og mætti eins vel fella hana úr frv.

Hv. 2. þm. G.-K. (K. D.) talaði um, að stefna þingsins ætti að vera að styrkja Landsbankann. Erum við honum sammála um það, en við álítum, að það eigi að styrkja hann án þess að misbjóða öðrum. Og það er aðalatriðið í þessu máli.

Hæstv. atvinnumálaráðherra (S. J.) hefir verið æðifljótur að skifta skoðun í þessu máli; við 1. umr. var hann með þessari breytingu, en nú er hann snúinn á móti henni. Furðar mig að vísu ekki á því úr þeirri átt. Hæstv. atvinnumálaráðherra virtist ganga út frá því, eins og aðrir, að Íslandsbanki mundi gefa hærri vexti; en ef hann gefur það, eru sjóðirnir beittir beinu ranglæti með því að leggja þá inn í Landsbankann og láta þá þannig ávaxtast minna en ella.

Hv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði, að brtt. væri óþörf, gerði hvorki til nje frá, en þá skil jeg ekki, hvers vegna slíkt kapp er lagt á að fella hana.