25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

14. mál, stofnun Landsbanka

Eggert Pálsson:

Það var hv þm. Ak. (M. K), sem gaf mjer ástæðu til að taka til máls, með því að blanda inn í umr. slettum út af stöðu minni sem bankaráðsmanns. En út af þeim atriðum, sem hann mintist á, ætti að vera nóg að minna á það, að bankaráðið tekur að sjálfsögðu engan þátt í daglegum störfum eða stjórn bankans, svo mál eins og þau, sem hjer ræðir um, koma ekki undir úrskurð þess. (M. K.: Þau ættu að gera það).

En fyrst jeg er á annað borð staðinn upp, vildi jeg víkja lítillega að nokkrum öðrum atriðum. Ástæðan til afstöðu minnar í þessu máli er sú, að raunin mun nú, sem að undanförnu, verða sú, að Landsbankinn einn geti ekki fullnægt þörfum stjórnarinnar, og þess vegna sje það happasælast að koma sjer sem best við báða bankana, meðan svo stendur, eða að minsta kosti óþarft að koma sjer út úr húsi hjá öðrum þeirra, þó með því sje auðvitað ekki sagt, að ekki eigi að styrkja hinn.

Önnur sletta var mjer send frá hv. þm. Ísaf. (M. T.), þar sem hann sagði, að till. mín kæmi úr hörðustu átt, þar sem helst mundi verða að telja mig landbúnaðarfulltrúa, en Landsbankinn hefði ætíð verið skjöldur og verja landbúnaðarins. Mjer er nú reyndar ekki kunnugt um, að svo sje ástatt sjerstaklega um Landsbankann. Því það er vitanlegt, að hvorugur bankinn hefir verið þess megnugur að reisa við landbúnaðinn, þó eflaust hafi ekki vantað viljann. Að þetta sje rjett má meðal annars sjá af því, að nú er fram komin þingsál. um að setja á stofn sjerstaka lánstofnun fyrir landbúnaðinn.

Annars virðist mjer auðsætt, eins og hv. þm. Snæf. (H. St.) tók fram, að í þessu máli á auðvitað að líta á báðar hliðarnar, ekki starblína eingöngu á stundarhag Landsbankans, heldur taka líka tillit til hagsmuna þeirra sjóða, sem hjer eiga hlut að máli, en það verður tæpast talið gert með því, að neyða þá til þess að leggja fje sitt inn í ákveðna stofnun, hvort sem þeir græða á því eða tapa, auk þess sem það mundi stappa nærri því, að þrýsta einokunarstimplinum á stofnunina sjálfa. Í sambandi við þetta má taka eitt dæmi til skýringar. Það verður ekki farið lengra en að meta Landsbankann til jafns við landssjóðinn, og við skulum gera ráð fyrir, að þetta tvent væri eitt og óaðskiljanlegt. Svo kemur einn góðan veðurdag till. um það, að taka t. d. alt ómyndugra fje og leggja það inn í landssjóðinn, og það jafnvel þó betri kjör fengjust annarsstaðar. Jeg býst við því, að mönnum þætti þetta óviðfeldin hagnaðarráðstöfun — og væri því þó ekki til að dreifa hjer, að útlendingar græddu — þar sem landssjóður sjálfur á í hlut.

En munurinn er enginn á þessu og þvinguðum innlögum opinberra sjóða í Landsbankann. Því Landsbankinn er ekkert annað en ein sjerstök grein af landssjóðnum.