25.08.1919
Efri deild: 39. fundur, 31. löggjafarþing.
Sjá dálk 899 í B-deild Alþingistíðinda. (589)

14. mál, stofnun Landsbanka

Magnús Torfason:

Út af orðum hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) vil jeg taka það fram, að vitanlega átti jeg í fyrri ræðu minni ekki við það, að Íslandsbanki væri lagalega skyldur til þess að lána ríkisstjórninni fje, en hinu held jeg fram, að siðferðislega sje hann skyldur til þess. Annað er það, sem jeg vil átelja í ræðu hæstv. fjármálaráðh. (S. E.), og það er sú tortrygni og þær getsakir, sem andaði úr henni í garð Íslandsbanka, en þetta er alveg ósæmilegt, því jeg get, að gefnu tilefni, vottað það, að Íslandsbanki hefir komið mjög vel fram gegn landinu nú á stríðsárunum.

Um lántöku landsins yfirleitt skal jeg að þessu sinni ekki segja annað en það, að jeg trúi því illa, að stjórnin hafi ekki getað fengið lán í Íslandsbanka, að minsta kosti með sömu kjörum og prívatmenn. Hvorki þetta nje önnur ummæli mín í þessu sambandi hafa þó átt að skiljast sem árásir á stjórnina, eins og sá hársári ráðherra, sem hjer hefir talað, hefir viljað skilja þau. En hitt er annað mál, að jeg býst við því, að það hefði að minsta kosti ekki spilt, þó nefndin hefði vitað um afstöðu fjármálaráðh. (S. E.) til málsins áður. Og dálítið er það skrítið, að ráðh. skuli ekki hafa fundið hvöt hjá sjer til þess að hreyfa neinu af þeim andmælum eða athugasemdum í Nd., sem hann hefir afhjúpað fjármálaspeki sína og skáldgáfu með að básúna hjer í deildinni.

Jeg skal svo yfirgefa hæstv. fjármálaráðh. (S. E.) og snúa mjer að háttv. þm. Snæf. í H. St.). Ræða hans var reyndar mest innifalin í útúrsnúningum. Það er því að eins eitt atriði í ræðu hans, sem jeg vil drepa á, og það var það, að með frv. væri verið að skapa misrjetti, þó það sje vitanlegt, að aðstaða bankanna hefir verið þannig undanfarið, að ef Landsbankinn fær þessi forrjettindi, má miklu fremur segja, að það sje verið að bæta misrjetti.

Að lokum skal jeg geta þess í sambandi við það ósæmilega tal um einokunarstimpil, sem hjer hefir klingt, að danski þjóðbankinn hefir í meira en öld haft þau sömu forrjettindi, sem hjer er farið fram á fyrir Landsbankann, og enginn uppnefnt hann fyrir það.