29.03.1921
Neðri deild: 29. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 1692 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

78. mál, sala á landspildu

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg bjóst ekki við umræðum um þetta mál nú, enda stafa ummæli háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) sennilega aðeins af ókunnugleika. Því um það getur eiginlega ekki verið að ræða í þessu falli, að af þessari landspildu yrði klipið handa einstökum mönnum; bæði er hún lítil og ekkert sjerstakt framtíðarsvæði, og auk þess nóg landrými í kauptúninu sjálfu til þeirra þarfa, sem hann átti við. Spilduna á aðeins að nota til þess að hafa þar nokkrar skepnur, og þótt eitthvað af henni verði hægt að taka til ræktunar, yrði það sjálfsagt gert með sömu skilyrðum og áður hefir tíðkast um slík afnot. Að öðru leyti get jeg vísað til ummæla hæstv. forsrh. (J. M.) um annað mál áþekt úr Eyjafirði, eins og mjer er einnig kunnugt um það, að hann telur ekkert við þessa sölu að athuga.