07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (2766)

83. mál, stofnun dócentsembættis

Forsætisráðherra (J. M.):

Það er rjett, sem sagt er hjer í greinargerðinni, að þetta frv. er borið fram af nefndinni fyrir mína hönd. Mjer finst ekki þörf á að fara mörgum orðum um frv., því að það er bein afleiðing af því, sem fjvn. þingsins 1920 hefir þegar gert og gengið að, að láta þennan mann hafa sömu kjör og dócenta við háskólann. Þetta veldur ekki nýjum fjárútlátum, því að það er ekki verið að stofna neitt nýtt embætti, nema að forminu, því að sá maður, dr. Alexander Jóhannesson, sem embættið er ætlað, gegnir þegar kenslustörfum við háskólann með þeim kjörum, sem frv. gerir ráð fyrir. En jeg get hugsað, að menn vildu binda það við nafn hans, enda mun von á brtt. í þá átt, og er ekkert við það að athuga.

Jeg vona, að hv. deild lofi því að ganga áfram, því að sem sagt er ekki gjaldaauki að því, eftir því sem áður hefir verið til stofnað, en rjettara að ákveða það svona heldur en hafa það í fjárlögunum eingöngu.