09.04.1921
Neðri deild: 39. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (2772)

83. mál, stofnun dócentsembættis

Pjetur Ottesen:

Það hefir verið að því fundið, að stjórnin hafi greitt ýmsar fjárveitingar eftir till. fjvn., án þess að það hafi verið borið undir þingið í heild sinni. Mest brögð hafa verið að þessu á síðastl. ári, og má ekki láta slíka aðferð vera óvítta. Nú kom það í ljós, bæði í ræðu hæstv. forsætisráðherra (J. M.) og hv. þm. Dala. (B. J.), að fjvn. hafa ráðið þennan kennara, sem nú á að fara að gera að föstum embættismanni, með stofnun þessa embættis, og töldu þeir báðir þingið bundið af þessu. Jeg mótmæli slíkri verslun. Jeg mótmæli því líka, sem hæstv. forsrh. (J. M.) sagði, að frv. hefði ekki eyrisfjárútlát í för með sjer fram yfir það, sem nú er. Það er sitthvað, að veita ákveðnum manni fje í fjárlögum til þessarar kenslu, eða stofna fast embætti, eins og hjer er farið fram á.