07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í C-deild Alþingistíðinda. (3141)

120. mál, launalög

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Það er stuttlega gerð grein fyrir frv. á þskj. 164, og hefi jeg litlu þar við að bæta. Eins og tekið er þar fram, þá geta skjótar verðbreytingar á vörum haft þau áhrif á verðlagsskrána eða vísitöluna, að hún langan tíma ársins sje ekki í því hlutfalli við vöruverðið, sem launalögin ætlast til.

Jeg skal taka það fram fyrir hönd nefndarinnar, að það, sem kom okkur aðallega til að bera þetta frv. fram, voru fjárhagsástæður ríkissjóðs.

Eins og sjá má af gildandi fjárlögum, gengur fullur helmingur allra útgjalda ríkisins í laun og dýrtíðarbætur embættis- og starfsmanna ríkisins. Það getur engum blandast hugur um, að þetta er stórkostleg upphæð, hærri en í nokkru öðru ríki. Eftir skýrslu stjórnarráðsins um dýrtíðaruppbætur á fjárlögunum, þá nema þær um 1,600,000 kr., sem, að ótöldum dýrtíðaruppbótum af eftirlaunum og styrktarfje og dýrtíðaruppbót farskólakennara, er goldið í því skyni.

Jeg hugsa, að mörgum muni ofbjóða upphæðin, en við þessu er ekkert hægt að segja, því að þetta eru gildandi lög. Þegar litið er á ástæður þjóðarinnar og atvinnurekendanna árið 1921, þá getur maður ekki búist við öðru en að það endi með stórkostlegum tekjuhalla. — Alstaðar, hvar sem augað eygir, blasa við vandræði og vonleysi um, að tekjur þessa árs komist í nokkurn námunda við útgjöldin. Jeg hygg, að þing eða stjórn hafi aldrei horft fram á aðra eins tekjuþurð eins og hlýtur að verða á þessu ári. Það má því með sanni segja, að nú sjeu góð ráð dýr til að draga úr þeim tekjuhalla, sem fyrirsjáanlegur er, og jeg játa það, að þetta ráð kunni að þykja nokkuð dýrt, eftir skilningi sumra á dýrtíðarákvæðum launalaganna.

Eftir skilningi þeirra má ekkert við þeim ákvæðum hreyfa, fyr en eftir 1925. Jeg er ekki lögfræðingur, en jeg held, að þinginu mundi þó heimilt að gera þær breytingar á launalögunum, að betra samræmi yrði milli dýrtíðaruppbótarinnar og verðlagsins á vörunum, sem hún er miðuð við.

Margir embættismenn líta svo á, að öll sanngirni mæli með því, að dýrtíðaruppbótin standi í sem rjettustu hlutfalli við verðlagið. Nú, þegar verðfallið er orðið 25–30%, þá yrði það ekki lítill sparnaður fyrir ríkissjóð, ef þessi uppbót yrði þeim mun minni þetta ár. — Þessi lækkun gæti fengist með því að setja verðlagsskrána 1. júní næstkomandi eins og frv. fer fram á; það mundi nema töluvert á þriðja hundrað þúsund krónum. Það er auðvitað, að verðlækkunin verður meiri, og sú tíð kemur, að dýrtíðarbæturnar hverfa alveg.

Þótt einstaka manni þyki þessi breyting vafasöm að lögum, þá er það í mínum augum samt engin „lögleysa“, eins og ætla mætti eftir hótunarbrjefi því, er embættismenn hjer í Reykjavík hafa sent þinginu, þar sem þeir áskilja sjer óskertan rjett til að leita dómstólanna ef frv. verður samþ. Þeir menn eru svo gerðir, að þeir lita ekki á ástandið, og fara ekki eftir því, sem er rjett og sanngjarnt. Jeg, sem embættismaður, tel það ekki sanngjarnt af þeim að gera úlfaþyt út af þessu, þó þeir telji sig hafa einhvern lagarjett þessa, eða telja það lögleysu, þó þingið gripi til, jeg vil segja, næstum því óyndisúrræða í þessu efni. Það eru alvarlegir tímar fyrir dyrum; flestum blöskrar að horfa á alt atvinnuhrunið, bæði til lands og sjávar; jeg vil ekki segja, að atvinnuvegirnir liggi fyrir dauðans dyrum, en í dauðans vandræðum eru þeir vissulega, og eiga við stærri örðugleika að stríða en jafnvel nokkru sinni áður um langan aldur.

Allir atvinnurekendur landsins verða að draga saman seglin, og margir þeirra að lifa við knappan kost.

Sú skoðun er vissulega eðlileg, þegar svona stendur á, að það sje a. m. k. engin óhæfa að fara þess á flot, að starfsmenn ríkisins, sem þjóðin elur á sveita sínum, taki nokkurn þátt í fjárhagsböli einstaklinganna. Þegar litið er á fjárhagsástandið 1921, þá verður að telja það lítið, sem hjer er farið fram á, að dýrtíðaruppbæturnar verði reiknaðar eftir tveim verðlagsskrám, og jeg játa það hreinskilnislega, að jeg verð að telja það sanngjarnt, að meira samræmi verði á verðlagi og dýrtíðaruppbótunum, en nú er.

Jeg get aftur tekið það fram, að mjer þætti gaman og skemtilegt, að leggja minn litla skerf fram, og þó að ekki muni mikið um það frá hverjum einstökum, þá sannast það, að margt smátt gerir eitt stórt, þó sumir vilji nú vefengja þann sannleika, þegar ræða er um fjárveitingar úr ríkissjóði hjer á þingi. Þó get jeg hugsað, að þetta muni ekki eins hafa áhrif til óánægju úti um land, eins og kemur fram í skjali þessu, er borist hefir frá nefnd starfsmanna ríkisins hjer í Reykjavík. Mjer er ekki kunnugt um, að öðrum embættismönnum úti um land, og það þeim, sem fjölmennastir eru, mundi finnast gengið svo á rjett sinn, að þeir væru knúðir til að leita dómstólanna. Reyndar þarf ekki nema einn gikkinn í hverri veiðistöð, og helst má búast við, að sá gikkur reki fyrst upp höfuðið hjer í Reykjavík.

Það er aðallega af sparnaðarástæðum, sem við flm. frv. flytjum þetta frv. Og okkur finst það ekki ósanngjarnt, að dýrtíðaruppbæturnar komist í sem fylst samræmi við verðlagið.

Það er nú heldur ekki fyrir að synja, að það geti komið fyrir, að þessi breyting á tveim verðlagsskrám, í staðinn fyrir eina, verði til að hækka dýrtíðaruppbótina, og ef vöruverðið hækkar, þá hafa starfsmenn ríkissjóðsins hag af því, að dýrtíðaruppbótin er reiknuð tvisvar á ári.

Jeg skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, en býst við, að frv. verði vísað til fjhn., og vildi þá gera það að till. minni.

Það er þó eitt atriði í 33. gr., sem vert væri að athuga. Það er, að ein vörutegundin, sem reiknað er eftir, nýslátrað dilkakjöt, er ekki til á markaðinum á þeim tíma, sem fyrri verðlagsskráin er samin, samkvæmt frv. Það er miðað við verð á dilkakjöti, en jeg áleit að taka mætti þá markaðsverð á íshússkjöti, og get jeg hugsað, að þessi liður verði því til að hækka verðlagsskrána, og þannig til hagsbóta fyrir starfsmennina.