07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í C-deild Alþingistíðinda. (3145)

120. mál, launalög

Fjármálaráðherra (M. G.):

Mjer dettur í hug að leggja fáein orð í belg um þetta mál. Það lítur út fyrir, að þetta frv. þyki af ýmsum óalandi og óferjandi, en jeg get ekki tekið undir um það að öllu leyti. Að sönnu skal jeg játa það, að jeg hefi ekki alveg gert það upp við samvisku mína, hvort jeg get fylgt því eða ekki. Það veltur á nokkrum atriðum, sem jeg hefi ekki haft tíma til að rannsaka. Mjer blandast þó ekki hugur um það, að það væri rangt að lofa málinu ekki til 2. umr., og til að rökstyðja það skal jeg benda á, að þegar hin gildandi launalög voru samþykt, mun hafa verið tekin dýrtíðaruppbót af ýmsum mönnum vegna þess, að þá fjellu lög nr. 33, 22. nóv. 1918 úr gildi. Vil jeg þar til nefna t. d. kennara við lýðskólana. Nú er að athuga það, hvort 1. gr. nefndra laga gefur ekki eins sterk loforð um dýrtíðaruppbót og 33. gr. launalaganna, því að ef hún gerir það. er ekkert undarlegt við það, þótt háttv. flm. þessa frv. gangi út frá því, að Alþingi geti eins breytt 33. gr. launalaganna, eins og felt úr gildi dýrtíðaruppbót þá, sem faldist í lögum nr. 33, 1918. Jeg verð að segja það, að mjer finst ekki ýkjamikill munur á anda 1. gr. laga nr. 33, 1918 og 33. gr. launalaganna, hvorttveggja ákvæðin lofa ótvírætt uppbót; og fyrst hv. Alþingi hefir sjeð sjer fært að afnema lög nr. 33. 1918 og svifta þar með suma dýrtíðaruppbót, virðist mjer athugamál, svo ekki sje mikið sagt, hvort ekki sje hægt að breyta 33. gr. launalaganna í þá átt, sem getur orðið embættismönnum til góðs, þótt hitt sje líklegra, að það verði til lækkunar. Þetta sýnist mjer rjett að athuga alt í nefnd, sjerstaklega hvort fært muni að breyta til á þessu ári. Mjer finst að frv. eigi að fara í allshn. og geri það að till. minni, að því verði þangað vísað.