07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í C-deild Alþingistíðinda. (3150)

120. mál, launalög

Þórarinn Jónsson:

Hjer er um lögfræðilegt atriði að ræða, og því allerfitt fyrir ólögfróða menn að gera sjer grein fyrir því. Aðalástæða hæstv. forsrh. (J. M.) móti þessu frv. var sú, að hjer væri um samning að ræða, sem ekki mætti hrófla við, en ástæður háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) snerust um alt annað.

Hæstv. fjrh. benti á hliðstætt dæmi og við það rifjaðist upp fyrir mjer annað dæmi, sem jeg vildi spyrja hæstv. forsrh. hvort ekki væri einnig hliðstætt.

Þegar aðflutningsbannið komst á, töldu áfengissalar ýmsir brotin lög á sjer, þar sem þeir höfðu 5 ára söluleyfi gegn vissu árgjaldi, og fóru í mál, en töpuðu því fyrir hæstarjetti í Danmörku.

Nú vildi jeg spyrja lögfræðingana, hvort þetta er ekki einnig hliðstætt dæmi. Í báðum tilfellum lögbundinn samningur, þar til 5 ára, en hjer til ársloka 1925. Hjer er þó þess að gæta, að alls ekki er breytt verðstuðli, heldur aðeins um það að ræða að semja verðlagsskrána tvisvar á ári, og verðstuðullinn, sem grundvöllur, skiftir hjer mestu máli.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) tók ýmislegt fram, og snerist mál hans mest um það, að mál þetta ætti ekki að fara lengra, og að alls ekki mætti „opna lögin“. Jeg veit ekki, hvað hv. þm. (M. J.) hefir átt við með því, að lögunum megi ekki breyta, og ef ekki má opna þau, hvernig fer hv. þm. (M. J.) þá að skilja þau? Nú er farið fram á það, að launahámarkið — 9500 kr. — verði numið burt. Má þá breyta lögunum til þess, af því að starfsmannasamband ríkisins fer fram á það, en þessu ekki vegna þess, að þingmenn fara fram á þessa breytingu?