07.04.1921
Neðri deild: 37. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (3159)

120. mál, launalög

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Það hefir nú verið mikið talað um málið frá sjónarmiði embættismannanna, en jeg tók það fram í gær, að það bæri líka að líta á þetta mál frá hinu sjónarmiðinu, nauðsyn ríkisins. Inn í lögfræðislegu deilurnar ætla jeg ekki að blanda mjer, en jeg vil minna á orðtakið gamla, að stundum brýtur nauðsyn lög; þegar um það er að ræða að bjarga skipi úr sjávarháska, er eigi altaf hægt að fara eftir föstum reglum, og líkt stendur á hjer. Þegar fjárhagnum er eins varið og nú er, þá verða menn að sætta sig við það, þótt eitthvað sje vikið frá því venjulega, og alt sje gert til þess að komast hjá því, að kassinn verði tómur. Enda mundi lítið verða um dýrtíðaruppbæturnar, ef svo yrði, og meira að segja föstu launin líka.

Hjer er ekki um það að ræða að taka stóra fjárhæð af embættismönnum, en það safnast, þegar saman kemur. Jeg er nú svo bjartsýnn, að jeg er viss um að allur þorri embættismanna utan Reykjavíkur mundi taka þessu vel. Það má vel vera, að þetta geti tæplega talist fyllilega rjettmætt í garð embættismannanna, en fjárhagurinn er nú þannig, að nauður rekur til þessa. Það stendur vá fyrir dyrum; tekjuhallinn verður sennilega um 3 miljónir, og þingið hefir enn ekkert gert til þess að bæta úr honum. Get jeg hugsað mjer, að svo kunni að fara, að tekjumar hrökkvi aðeins til að greiða embættis- og alþingismönnum laun sín. En þrátt fyrir þetta halda sumir hv. þm., að altaf megi hrúga á fjárlög og fjáraukalög nýjum útgjöldum; halda þeir sennilega, að einskonar „manna“ muni rigna af himni niður í ríkissjóðinn, og því þurfi enga fyrirhyggju að hafa með fjárhag ríkisins.

Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) gat þess, að brjefið frá framkvæmdanefndinni ætti ekki að skoða sem hótun, heldur vísbendingu um álit þeirra á málinu. En það hafa eigi komið fram upplýsingar um það, hvort þessi framkvæmdanefnd embættismanna í Reykjavík hefði umboð frá öllum embættismönnum landsins til þess að skrifa hótunarbrjef, eða hvort hún framkvæmdi það upp á eindæmi sitt, án þess að spyrja umbjóðendur að. Veit jeg eigi til, að hún hafi leyfi til svo ótakmarkaðs umboðs. Jeg skal játa, að það væri leiðinlegt, ef einhver af embættismönnunum sækti ríkið að lögum, ef frv. þetta verður að lögum, en hins vegar er jeg viss um, að hvernig sem dómstólarnir kynnu að líta á málið, þá yrði dómur alþjóðar ekki áfellisdómur á þessa viðleitni Alþingis, því að fólkið finnur, hvar skórinn kreppir að, og dylst eigi það ægilega útlit, sem fram undan er, þar sem sýnilegt er, að tekjurnar verða stórum undir áætlun þetta ár, og árið hlýtur því að enda með stórkostlegum tekjuhalla.

Eina bjargráðið er því að finna einhver úrræði til sparnaðar.

Að mínu áliti er ríkið að sligast undir útgjöldunum til embættismannanna: Jeg get raunar ímyndað mjer, að jeg standi nær einn uppi með þessa skoðun, því að aðgerðir þingsins virðast benda á annað álit, þar sem ekki er vílað fyrir sjer að auka sífelt við nýjum útgjöldum, og þeim jafnvel miður nauðsynlegum, enda þótt stórkostlega verði að draga úr hinum nauðsynlegustu útgjöldum til eflingar atvinnuveganna.

En það eina, sem goðgá er að hagga við, eru þessi 3 milj. kr. útgjöld til starfsmanna ríkissjóðs, en mjer sýnist nú, að það geti ekki verið nein óhæfa, þó farið sje fram á, að launin sjeu jafnan í sem bestu samræmi við verðið á þeim lífsnauðsynjum, sem dýrtíðaruppbótin er reiknuð eftir, og jeg held, að það hljóti að teljast sanngjarnt, jafnvel þó breyting sú, sem hjer er farið fram á í þá átt, fari ef til vill í einhvern bága við hinn strangasta lagarjett. Og hvað sem dómi embættismanna í Reykjavík líður í þessu máli, þá er jeg viss um, að dómur gjaldenda landsins verður viðleitni þessari í vil, því þegar svo er komið, að þrátt fyrir það, þó þingið hækki skattana ár frá ári, verða tekjurnar samt miklu minni, þá sýnist líklega flestum, að útlitið sje ekki sem glæsilegast.

Undir þessum kringumstæðum mætti það því teljast mikil einurð að fara í mál við ríkið út af nokkrum krónum. Þegar einstaklingarnir draga seglin saman á öllum sviðum atvinnuveganna og verða þar af leiðandi að takmarka allar þarfir sínar, til að forðast algert fjárhrun og beinan bjargarskort, þá er eigi nema eðlilegt, þó að þeir ætlist til þess, að Alþingi reyni eitthvað að draga úr þyngstu byrðinni, sem á ríkissjóði liggur.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) ætla jeg engu að svara, því að það þaut líkt í þeim skjá, sem jafnan hefir áður þotið.

Hvað því viðvíkur að reyna samningaleiðina, sem hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) talaði um, þá skal jeg geta þess, að jeg mundi aldrei hafa borið fram þetta frv., ef jeg hefði haldið, að hægt mundi að ná til allra á þann hátt, og búist við því, að þeir gæfu ríkissjóði eftir meiri og minni hl. dýrtíðaruppbótar sinnar. En við þessu hvorttveggja bjóst jeg eigi og síst geri jeg það nú, eftir undirtektirnar hjer á Alþingi. Annars skyldi jeg fúslega segja til þess nú þegar, hvað jeg vildi gefa eftir, einkum ef „collega“ minn hjer á þinginu vildi gera hið sama; sýnist mjer vel til fallið, að við andlegu stjettar mennirnir gengjum hjer á undan.

Að endingu vil jeg endurtaka það, að málinu sje vísað til fjhn., enda þótt jeg geri þetta að engu kappsmáli.