07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (3170)

120. mál, launalög

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Það þýðir ekki að hefja langar umr. um málið nú, enda ætla jeg mjer það eigi.

Það má vel vera, að verðlag sje reikult enn sem komið er, en frv. á einmitt að miða að því, að embættismenn og, ríkissjóður biði sem minstan halla af þessu reikula verðlagi. Ef verðlag hækkar mikið, rjett eftir að verðlagsskráin er samin, eða jafnvel áður en hún kemur í gildi, þá er ekki sanngjarnt að embættismenn fái miklu lægri dýrtíðaruppbót samkvæmt verðlagsskránni. Eins er það ósanngjarnt, að ríkissjóður gjaldi alt árið miklu hærri dýrtíðaruppbót en sem samsvarar hinu raunverulega verði, sökum skyndilegs verðfalls, rjett eftir að verðlagsskráin kemur í gildi. Fyrir þetta er að mestu leyti bygt með tveimur verðlagsskrám á árinu. Annars tel jeg litlar líkur á því, að vörur hækki, en yrði það, þá er að taka því.

Jeg veit, að hæstv. forsrh. (J. M.) telur þetta samningsrof, en ýmsir aðrir lögfræðingar líta ekki svo á. Og fyrst ágreiningur er um þetta, sje jeg ekkert á móti því, að úr þessu verði skorið af dómstólunum, svo framarlega sem embættismenn telja það viðeigandi að fara til þeirra með þetta mál.

Verðlag á þeim vörum, sem verðstuðullinn er miðaður við, hefir nú lækkað um 30%, og með þeirri lækkun sparaðist ríkissjóði síðara misseri þ. á. um 350 þúsund krónur, ef verðlagsskráin væri sett í júnímánuði næstkomandi; sjá allir, hvílíkur sparnaður þetta yrði fyrir ríkissjóð, og skil jeg ekki, að nokkur þm. ætti að sjá eftir því, eins og nú lætur í ári með tekjur ríkisins. Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um málið.