07.05.1921
Neðri deild: 64. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í C-deild Alþingistíðinda. (3171)

120. mál, launalög

Magnús Jónsson:

Mjer skildist, að ástæður hv. frsm. og flm. frv. þessa (S. St), þegar hann bar það fyrst fram, væri sparnaður fyrir ríkissjóð og ekkert annað. En nú sýnist, eftir nál. hv. allshn., að þetta sje aðallega gert fyrir starfsmenn ríkisins. En væri farið fram á þessa breytingu aðallega vegna sanngirni við embættismennina, þá hefði nefndin átt að leggja til, að embættismönnum yrði bætt upp laun sín frá 1. júlí 1920. En þetta hefir hún ekki gert og það vegna þess, að ástæðan er einungis sparnaðurinn fyrir ríkissjóð, enda þótt nefndin vilji nú láta það líta svo út, sem það sje, með fram að minsta kosti, gert vegna starfsmannanna.

Sýnist mjer, að það hefði verið miklu drengilegra af nefndinni að kannast við þennan tilgang sinn, sem er virðingarverður, heldur en reyna að villa mönnum sýn með því að bera aðra ástæðu fyrir.

En gallinn við frv. er það, að sparnaðurinn getur enginn verið, því að rjettargrundvöllinn vantar. Er, að því er jeg veit best, enginn lögfræðingur í vafa um, að hjer er um samningsbrot að ræða.

Efast jeg ekki um, að hv. deild muni athuga þetta, og samþykki ekki lög frá Alþingi, sem eru markleysa.