20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (3490)

141. mál, löggilding baðlyfs

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg er hræddur um, að stjórnin geti ekki tekið við áskoruninni, þó að till. verði samþykt. Jeg skal skýra það nánar og vona, að hv. deild athugi aðstöðu stjórnarinnar.

Samkvæmt lögum um sauðfjárbaðanir frá 10. nóv. 1913 er stjórninni falið að ákveða, hver baðlyf skuli notuð, og er það kölluð löggilding, sem stjórnin ákveður í því efni. Til þess þannig að löggilda baðlyf til þrifaböðunar hefir það í framkvæmdinni orðið svo, að dýralæknirinn hjer í Reykjavík hefir athugað baðlyfin og mælt með þeim til löggildingar, sem honum hafa þótt nægilega tryggileg. Önnur baðlyf hafa svo ekki fengist löggilt. Þetta var sú minsta trygging, sem stjórnin gat sætt sig við, til þess að löggilding hefði nokkuð að þýða. Það er ekki hægt að ætlast til, að ráðherra hafi vit á baðlyfjum, enda mun það tilviljun, ef þeir hafa reynslu í þeim efnum eins mikla og jeg hefi. En samt hefi jeg ekki þá reynslu í baðlyfjum, að jeg geti lagt dóm á það, hvort baðlyf, sem flutt eru inn í landið, eru brúkleg eða hættuleg.

Þessari baðlyfstegund, Coopers-baðdufti, hefir dýralæknir ekki viljað gefa meðmæli sín. Það er því ekki hægt að búast við, að stjórnin löggildi það gegn hans ráðum. Það væri sama sem að kippa fótum undan löggildingunni.

Það er ekki rjett að skipa stjórninni að gera það, sem hún ekki getur gert, og vil jeg því ráða alvarlega frá því, að þessi till. verði samþ. (J. B.: Ætlar stjórnin þá að segja af sjer?).