20.05.1921
Neðri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (3491)

141. mál, löggilding baðlyfs

Sigurður Stefánsson:

Jeg er hlyntur þessari till., án þess jeg ætlist til, að hæstv. stjórn segi af sjer hennar vegna. En jeg legg lítið upp úr henni. Jeg veit, að þar, sem jeg þekki til, nota menn þetta baðlyf og vita, að það er einhlítt til þess að eyða óþrifum. En þeir, sem hafa reynt hin löggiltu lyf, vita, að þau geta ekki drepið svo mikið sem eina íslenska færilús. Jeg hefi sjálfur notað Coopers-baðlyf í 20 ár, og það er svo grandvart um, að nokkur vargur lifi á skepnunni heilt og hálft missiri eftir baðið. Jeg hefi sagt dýralækninum, að jeg noti það og að reynslan sýni, að það sje best. Jeg hygg, að þeir, sem hafa notað það hingað til, noti það líka framvegis, hvort sem þessi till. verður samþ. eða ekki.