17.02.1922
Neðri deild: 3. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í C-deild Alþingistíðinda. (1535)

14. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Fjármálaráðherra (M. G.):

Þetta frv. er lagt fyrir Alþingi til þess að fullnægja ákvæðum 23. gr. stjórnarskrárinnar, um að bráðabirgðalög skuli jafnan lögð fyrir næsta Alþingi. Bráðabirgðalög þessi eru sem sje fallin úr gildi eða þýðingarlaus frá 1. jan. þ. á., og fyrir þá sök þarf ekki að samþykkja frv. og ekkert við það að gera, nema ef koma ætti fram ábyrgð á hendur stjórninni, sem jeg læt mjer ekki detta í hug.

Samkvæmt þessu virðist mjer rjettast að vísa frv. til 2. umr., þegar þessari umr. er lokið, og legg jeg til, að svo verði gert. En vegna þessa frv. sjálfs virðist mjer ekki þörf að vísa því til nefndar, en samt legg jeg til, að svo verði gert, og þá til fjhn. Ástæðan til þessa er sú, að komið hefir fram umkvörtun frá Dönum, um að tollendurgreiðsluákvæði laga nr. 60, 27. júní 1921, færi í bága við sambandslögin. Þetta sýnist mjer rjettast að sje rannsakað í nefnd, og þá má hafa þetta frv. sem grundvöll. Nefndin mun þá fá umkvörtun þessa og önnur skjöl þar að lútandi til athugunar, til þess að byggja þar á till. sínar.