01.03.1922
Neðri deild: 11. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í C-deild Alþingistíðinda. (1538)

14. mál, útflutningsgjald af síld o.fl.

Fjármálaráðherra (M. G.):

Þegar jeg lagði þetta frv. fyrir hv. deild, mun jeg hafa tekið það fram, að jeg áliti þess ekki þörf, að þingið samþykti það sem lög, þar sem bráðabirgðalög þau, sem það er bygt á, fjellu úr gildi við síðustu áramót. Frv. var aðeins lagt fyrir Alþingi til þess að fullnægja 23. gr. stjórnarskrárinnar.

En hitt tók jeg einnig fram, að rjett væri að nota þetta frv. sem grundvöll eða ástæðu til að rannsaka umkvörtun Dana yfir síldartollsendurgreiðsluákvæðinu. Um þetta atriði liggur nú fyrir yfirlýsing nefndarinnar, en hún út af fyrir sig getur ekki komið til atkv., eins og málið liggur fyrir. Jeg skal nú ekkert um þessa niðurstöðu nefndarinnar segja, að því er kemur til deilumálsins við Dani, en jeg verð að endurtaka það hjer, sem jeg sagði í fyrra, að ákvæði eins og þetta, um endurgreiðslu tollsins, er óhæft í lögum, því að torvelt mun reynast að ákveða kostnaðarverðið. Hefir jafnvel þegar borið á örðugleikum á þessu.

En um frv. verð jeg að endurtaka það, að tilgangslaust er að láta það fara lengra. Það er ekkert nema fyrirhöfn og skollaleikur að fá konungsstaðfestingu á og birta í Stjórnartíðindum lög, sem eftir innihaldi sínu eru fallin úr gildi. En fyrst frv. er nú komið á dagskrá, þá er líklega rjettast að vísa því til 3. umr. Og þá vil jeg um leið óska þess, að hæstv. forseti taki það ekki oftar á dagskrá.