25.04.1922
Neðri deild: 55. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (1773)

93. mál, lagasetning búnaðarmála

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Jeg skal heita því að vera ekki mjög fjölorður, enda líður nú fast að þinglausnum, og hv. þm. vilja því losna við langar umr.

Sumum kann að virðast óþarft að bera fram þingsályktunartillögu um slík mál, sem hjer um ræðir, enda hefir nú stundum viljað bera við, að þál. hafa verið gerðar um að skora á stjórnina að undirbúa þetta eða hitt, og svo hefir það engan árangur borið. Jeg læt þau dæmi nú ekki aftra mjer. Og í þessum málum virðist mjer sú leið, sem hjer er lagt til að farin verði, hin rjetta. Það þarf að vanda vel til lagasetninga um þau mál, sem efst eru á baugi og mikilsverðust talin. Og einmitt í þessum málum er rjett, að hvötin komi frá þjóðinni, frá fulltrúum þjóðarinnar, til stjórnarinnar, en hún búi svo málin undir og í hendur Alþingis aftur til úrslita. Þessi leið hefir ekki að jafnaði verið farin undanfarin þing eins og skyldi, en lagasetning síðari þinga hefir einmitt sýnt, að þörf er á betri undirbúningi og vinnubrögðum, svo að góður árangur náist. Starf síðustu þinga hefir verið talsvert brotakent og heldur lítt heilsteypt. Slíkur undirbúningur, sem till. fer fram á, hefði áreiðanlega getað bætt um í mörgum málum, og með það fyrir augum er hún borin fram.

Það, sem annars kom mjer til að flytja tillöguna, er í fyrsta lagi það að hvetja til þess, að lög verði sett um þau ákveðnu búnaðarmálefni, sem nauðsynlegust eru og enga bið þola. Hefi jeg nefnt dæmi þeirra mála í greinargerðinni, sem svo er háttað.

Er oft svo, að þegar komið er skipulagi á eitt mál, þá leiðir það til þess, að athuga þarf annað, sem er því skylt. Má t. d. benda á, að um leið og komið er föstu skipulagi á áveitumálin, þá þarf jafnframt að gera breytingar á nýbýlalöggjöfinni. Í gildandi nýbýlalögum er eingöngu miðað við það, að nýbýli sjeu stofnuð í óræktuðu landi, en þau víkja ekkert að því, að nýbýli komi sökum þess, að landið er ræktað upp. Í þessum samböndum kemur maður og að ábúðarlögunum, sem mjög er ábótavant. Á þinginu 1921 var að vísu samþ. þál. um endurskoðun þessara laga, en það hefir ekki enn verið gert, og ítrekunin því ekki úr vegi. Önnur ástæða til flutnings till. er sú, að jeg vildi minna á það, að það eru mörg þjóðmál, sem heildarskipun þarf að komast á um, — en hana vantar svo tilfinnanlega, eins og jeg hefi bent á, — og gefa bendingu um þá aðferð, er jeg tel eðlilegasta. Við erum orðnir á eftir í landbúnaðarmálunum, og sökum þess er sú löggjöf, sem þar að hnígur, öll í molum. Vil jeg nú, að reynt verði að ráða bót á þessu, og málin tekin í flokkum og heildaryfirlitsins gætt. Áveitulöggjöf vorri er nú svo fyrir komið, að sjerstök lög frá 1917 eru um Flóaáveituna, en svo eru almenn lög um áveitur, frá 1913. En þessi lög eru ekki nægilega samræm nje fullkomin; einkum vantar í áveitulögin ákvæði, sem tryggi þingi og stjórn íhlutunarrjett um þau fyrirtæki jafnótt og þau komast í framkvæmd. Þar vantar tilfinnanlega sameiginlega yfirstjórn og öryggi, sem henni þarf að fylgja. Er oft svo, að til ýmsra fjelaga er stofnað af handahófi, og afleiðingin verður svo sú, að fjelögin bera sig ekki og verða til vandræða. Hefir þetta meðal annars sannast tilfinnanlega í ýmsum einkafyrirtækjum hjer, svo sem togarafjelögum, er stofnað hefir verið til af handahófi, og taka varð síðan stjórnina af, er alt var komið í ólestur. Það á jafnt við um fyrirtæki einstaklinga sem heildarinnar, að miklu skiftir, að öllu sje skipulega fyrir komið frá byrjun.

Flóaáveitulögin tryggja gott skipulag að ýmsu leyti, en fleiri áveitur eru á ferðinni, svo sem Miklavatns- og Skeiðaáveitan. Er sagt, að ýmislegt sje þar að athuga við, sem mest stafar af því, að heildarskipunina vantar, og yfirstjórnin ekki nægilega góð. Þar er verkefni fyrir atvinnudeild stjórnarráðsins og búnaðarfjelag landsins að taka höndum saman. Er það ríkur almenningsvilji í hjeruðum, þar sem þessi mál taka til, að við fáum sterka yfirstjórn þeirra og góða menn, sem hægt er að leita til um allar upplýsingar. Þar má ekkert reka stjórnlaust.

Jeg hefi átt samtal um þetta við Búnaðarfjelag Íslands, og álítur það eðlilegt, að það hafi íhlutun um stærri málin. Vil jeg ekkert dæma um, hvort það er fært til þess eða ekki, en jeg hugsa þó, að það sje það tæplega til fulls með þeim starfsmönnum, er það hefir nú á að skipa. Raunar hefir það vatnsvirkjafræðing í sinni þjónustu, en það hefir engan almennan verkfræðing. En þótt Búnaðarfjelaginu yrði falin forystan að einhverju eða öllu leyti, þá er ekkert eðlilegra en það yrði í senn gert þess umkomið með viðbótarliði að geta staðið straum af slíku. Áveitumálin eru stærstu málin, og þar ríður því mest á, að til sje sameiginleg heilsteypt löggjöf.

Í fyrra var minst á það, hvort ekki mundi unt að koma á erfðaábúð á þeim jörðum, sem væru í ríkiseign. Þetta þarf að athuga. Einnig þarf að sjá fyrir því, að ekki verði eintómt handahóf um eignarrjett og fleira, þegar hið aukna ræktaða land kemur og eftirspurnin eftir því fer vaxandi. Bændastjettin þarf að mannast og styrkjast til að njóta örugg og óáreitt ábýla sinna.

Þá er að minnast á hjúalöggjöf vora. Núgildandi lög um þau efni er tilskipun frá 1866, svo ekki er að undra, þótt margt hafi breyst síðan og að þau sjeu nokkuð orðin á eftir tímanum. Þýðir ekki að fara að telja upp allar þær breytingar. En þess eins má minnast, að oft veldur það nú hinum mestu örðugleikum að ákveða kaupgjaldið. Það er vísað til hins almenna kaupgjalds, en svo vill enginn ákveða neitt. Svona er það til sveitanna. Enn má og benda á, að taxtar allir eru á hverfanda hveli, og væri ástæða til að athuga, hvort gamla landauragreiðslan gæti ekki hjer bætt úr. Væri þetta alt athugað, væri betur farið en heima setið. Enn er það mjög nauðsynlegt, að athuguð sje peningahliðin á öllum þessum málum, því það atriði er ærið mikilsvert og kemur æ til greina. Á þing og stjórn að sjá um, að bændum verði fyrirtæki til búþrifa möguleg og hlutast til um það, að peningastofnanir landsins beini peningum sínum í þennan farveg. En það held jeg, að öllum hljóti að vera áhyggjuefni, ef því heldur áfram, að fólki fjölgi í hverri kaupstaðarholu, en fækki í bestu sveitum landsins. Óhyggileg peningamálastjórn á miklar sakir á, hvernig komið er í þessum efnum.

Fleira skal jeg svo ekki segja að sinni. Bíð eftir að heyra ástæðurnar fyrir brtt., en vona, að málið fái góðar undirtektir og till. mín verði samþ.