25.04.1922
Neðri deild: 55. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (1774)

93. mál, lagasetning búnaðarmála

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Mjer datt í hug, er jeg sá þessa till., að æskilegra hefði verið, að hún hefði verið með nokkuð öðru móti. Á jeg þar við, að hún hefði farið fram á það, að skipuð væri milliþinganefnd til að athuga mál þessi, í stað þess að skora á stjórnina að gera það.

Mál þessi eru svo mikilsverð og vandasöm, að varla er hægt að búast við því, að stjórnin fái annað þeim, sjerstaklega þegar þess er gætt, að fjöldi vandasamra mála, svo sem um embættaskipunina, breyting á fátækralöggjöf o. fl., hefir þegar verið vísað til hennar. En auðvitað telur hún sjer skylt að taka þessi mál til íhugunar og afgreiða þau eftir því, sem hægt er á svo stuttum tíma. Hv. flm. (E. E.) ætlast ekki heldur til þess, að þau verði öll afgreidd fyrir næsta þing, heldur tekin smátt og smátt. En mál þessi eru svo yfirgripsmikil, að óhjákvæmilegt er að fá aðstoð. Er Búnaðarfjelagið þar eðlilegur og sjálfsagður fyrstur ráðunautur, og býst jeg við að snúa mjer fyrst og fremst til þess með aðstoð.

Það er engum blöðum um það að fletta, að bæði ábúðarlögin og einkum hjúatilskipunin eru orðin mjög gömul og næsta úrelt. Er ekki að furða á því með hjúatilskipunina, þótt hún fylgist ekki að öllu leyti með tímanum, því hún er nú nærri 60 ára gömul, og þó meira, því hún er sniðin eftir dönskum lögum, sem þá voru 12 ára, og er hún því í raun rjettri nær 70 ára gömul. Er því eðlilegt, að nú þurfi að fara að endurbæta hana, enda ætti það ekki að vera svo ýkjamikið verk, og býst jeg við, að það ætti ekki að vera svo erfitt.

Það hefir nú komið fram brtt. frá hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) viðvíkjandi þessu atriði, og verði hún samþykt, þá er þessum vanda þar með ljett af stjórninni.

Hvað ábúðarlögin hins vegar snertir, þá eru þau talsvert yngri, enda var og mjög vandað til þeirra frá upphafi. Voru við samningu þeirra þeir menn, sem þá voru í mestu áliti sem búmenn og taldir hafa best vit á slíkum efnum, enda hefir ekki, að því er jeg veit til, verið kvartað mikið undan þeim lögum. En þau eru nú orðin undir 40 ára gömul, og er því sjálfsagt engin vanþörf á að endurskoða þau. En sú endurskoðun verður vandasöm, og vafalaust verður þar að nota aðstoð Búnaðarfjelagsins og ýmsra góðra og glöggra bú- og lagamanna.

Það eru ræktunarlögin, sem hjer verða þó erfiðasta viðfangsefnið. Þar verður stjórnin að neyta annarar aðstoðar, sökum ónógrar þekkingar sinnar á því efni. En verði tillagan samþykt, þá skil jeg hana svo, að hún jafnframt heimili stjórninni þau nauðsynleg útgjöld, er hún kann að hafa í för með sjer fyrir aðstoð og annað þar að lútandi.

Mun stjórnin yfirleitt taka þetta alt til yfirvegunar og framkvæmda eftir föngum.