25.04.1922
Neðri deild: 55. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í D-deild Alþingistíðinda. (1778)

93. mál, lagasetning búnaðarmála

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Jeg vil þakka hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) fyrir það, hve vel hann hefir tekið í þetta, og fyrir þær upplýsingar, sem hann hefir gefið í málinu. Skal jeg geta þess, að það sama hefir og vakað fyrir mjer sem honum, að málið væri komið inn á skakka braut og þörf væri á að beina því í rjettan farveg aftur. Jeg er á sama máli og hv. þm. (J. Þ.), að heppilegast muni vera að koma forstöðunni á eins manns hendur. Hitt er annað mál, hvort það er rjettast, að stærri áveitur einar sjeu undir vegamálastjóra og hinar smærri undir Búnaðarfjelagi Íslands. Skortir mig þekkingu til að dæma um það, hvað heppilegast muni í þessu efni, en vona hins vegar, að landsstjórnin leiti sjer upplýsinga um þetta hjá þeim mönnum, sem best þekkja til slíkra hluta, og býst jeg þá við, að ekki verði gengið fram hjá hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) og Búnaðarfjelagi Íslands.

Vona jeg nú, að þetta komist í framkvæmd sem fyrst, og verði það, þá er betur farið en heima setið.